Byggt verður á sáttaleiðinni

mbl.is/Sigurður Bogi

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins og nefndarmaður í atvinnuvegnanefnd Alþingis, segir að frumvarp um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi og álagningu veiðigjalda muni byggjast á sáttaleiðinni svokölluðu. 

Í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun sagði hann að allir stjórnmálaflokkar hefðu á einhverjum tímapunkti, og að einhverju leyti, lýst sig sammála um eitt og annað sem fram kemur í frumvarpinu. „Þetta er tilraun til sáttar í þessu máli,“ sagði Þorsteinn.

Sáttanefndin svokallaða skilaði áliti sínu fyrir fjórum árum. Leið hennar byggist á kvótakerfinu, þó þannig að horfið verði frá úthlutun aflaheimilda með núverandi fyrirkomulagi og þess í stað verði teknir upp nýtingarsamningar við útgerðarfyrirtæki til tiltekins árafjölda.

Ekki var sátt í sáttanefndinni um árafjöldann en núverandi sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sagði á aðalfundi LÍU árið 2013 að til að skapa nauðsynlega festu væri eðlilegt að útgerðir fengju rétt í til dæmis 20 til 25 ár, með skýrum framlengingarákvæðum.

Nefnd á vegum stjórnarflokkanna hefur lengi unnið að undirbúningi frumvarpsins.

Stöðugleikinn mikilvægur

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sagði nauðsynlegt að sátt náðist í sjávarútvegsmálum. Samtökin hefðu undanfarin ár unnið að því með stjórnvöldum að ná samkomulagi. Það væri nauðsynlegt til þess að friður og ró skapaðist í kringum atvinnugreinina. Stöðugleiki og fyrirsjáanleiki væru mikilvæg atriði. „Þess vegna höfum við verið viljug hjá SFS til að finna lausn á þessu máli,“ sagði hann.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, benti á að ekki væri nóg að ná sáttum við útgerðarmenn landsins, heldur þyrfti einnig að ræða þessi mál við þjóðina og sjávarbyggðirnar. „Það þarf líka að ná sátt um það hvaða arf þjóðin í heild fær af greininni,“ nefndi hún.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert