Fáir dvelja á óuppgerðum eyðibýlum

Steinaborg í Berufirði. Húsið er nú gjörónýtt eftir eldsvoða síðastliðinn …
Steinaborg í Berufirði. Húsið er nú gjörónýtt eftir eldsvoða síðastliðinn föstudag. Eyðibýli á Íslandi

Ekki er mikið um að fólk dvelji í óuppgerðum eyðibýlum hér á landi til lengri tíma, algengara er að einstaklingar og fjölskyldur geri upp eyðibýli og nýti sem sumarhús eða í ferðaþjónustu.

Rúmlega þrítugur karlmaður komst lífs af ásamt hundi sínum 6. febrúar sl. þegar eldur kom upp á Steinaborg í Berufirði. Maðurinn flutti inn í húsið síðastliðið sumar og stefndi að því að gera það upp með tímanum.

Talið er að eldur hafi komið upp í kamínu í eldhúsi Steinaborgar en bærinn er gjörónýtur. Þegar maðurinn flutti inn hafði ekki verið búið í húsinu frá árinu 1969 en það var byggt árið 1918. Ekki er ljóst hversu langt á veg fyrirhuguð uppbygging mannsins var komin.

Unnið var að rannsóknarverkefninu Eyðibýli á Íslandi árin 2011 til 2014. Hópur háskólanema ferðaðist um landið og skráði upplýsingar um eyðibýli og yfirgefin hús á Íslandi en afraksturinn er útgáfa á sjö binda ritverki með upplýsingum um 748 hús. Farið var að Steinaborg síðastliðið sumar þegar hópurinn ferðaðist um Austfirði vegna lokaáfanga verkefnsins og skráði upplýsingar í máli og myndum.

Vildi láta reyna á eigin styrk

Yfirgefnir bæir geta sannarlega verið heillandi áfangastaðir og hafa gjarnan leyndardómsfullt aðdráttarafl. Mörgum finnst áhugavert að skyggnast inn í fortíðina með því að virða fyrir sér húsin sem standa tóm og hafa látið á sjá eftir veður, vinda og búsetu í gegnum árin. Hugurinn reikar til þeirra sem þar áttu heimili, fólksins sem brá búi á sínum tíma.

Rústir Steinaborgar standa undir hlíðum Berunestinds við Berufjörð á Austfjörðum. Torfbær stóð á jörðinni til ársins 1917 en bærinn Steinaborg var byggður þar sem hann stóð. Húsið var tvílyft, bárujárnsklætt timburhús en efri hæð þess var nánast eingöngu undir súð. Það var einangrað með þurrkuðu heyi og hélst illa hiti inni í því.

Byggt var við húsið árið 1930 og var hún notuð til samkomuhalds um skeið. Í upplýsingum um Steinaborg segir að áhugi sé fyrir því að gera húsið upp og sótt hafi verið um styrki til Minjastofnunar.

Í viðtali við Landann í vetur sagði ungi maðurinn sem bjó á Steinaborg, Bergur Hrannar Guðmundsson, að hann hefði viljað láta reyna á eigin styrk og byggja bæinn upp þannig að hann endurheimti sína fyrri reisn.

Hvorki var rafmagn né rennandi vatn á bænum og þá var heldur ekki heimreið að húsinu. Vegurinn sem lá framhjá Steinaborg lá áður fyrir ofan bæinn en þegar hann var færður niður fyrir bæinn á síðustu öld var hann farinn í eyði og því þarf að aka yfir tún ef komast á að rústum bæjarins.

Eltust við hús sem voru fullkomlega yfirgefin

Gísli Sverrir Árnason, annar af verkefnisstjórum verkefnisins Eyðibýli á Íslandi, segir að sem betur fer séu allmörg dæmi um að fólk hafi hafið uppbyggingu á eyðibýlum hér á landi. Í þeim tilvikum er oftast um að ræða uppbyggingu svo hægt sé að dvelja í húsinu yfir sumartímann í frístundum eða til að hýsa ferðamenn.

Slíkar endurbætur leiddu aftur á móti til þess að viðkomandi hús fór ekki í bækurnar, það var hluti af okkar skilgreiningu að ef það var byrjað að gera við viðkomandi eyðibýli til að nota það sem sumarhús, í ferðaþjónustu eða annað slíkt, þá skráðum við það ekki. Við vorum eingöngu að eltast við hús sem voru ekki í notkun, hús sem voru fullkomlega yfirgefin. Við slepptum húsum ef búið var að breyta þeim í sumarhús eða ef viðgerðir voru hafnar,“ segir Gísli Sverrir í samtali við mbl.is

Hugtakið eyðibýli er hér notað í nokkuð þröngum skilningi. Rannsóknin náði til yfirgefinna íbúðarhúsa í sveitum landsins sem ekki hafa verið tekin til annarra nota. Þau skilyrði voru gefin að húsið hafi a.m.k. fjóra uppistandandi útveggi. Húsin þurftu ekki endilega að standa á eyðijörð heldur gátu þau staðið á jörð í búnytjum.

Að mörgu þarf að huga við uppbygginguna

Ekki var hafin uppbygging á Steinaborg í sumar þegar háskólanema sem unnu að verkefninu bar að garði. Hópurinn nefndi þó að þau hefðu hitt mann á bænum sem var byrjaður að hreiðra um sig.

Gísli Sverrir bendir á að mörgu þurfi að huga við uppbyggingu á húsum sem þessum en í mörg húsanna vantar til að mynda vegasamband, rafmagn og vatnsveitu. Þess beri þó að geta að allur gangur sé á því hvaða kröfur fólk geri. „Þessi ungi maður virðist hafa ekki gert miklar kröfur,“ segir hann og vísar til Bergs Hrannars sem bjó á Steinaborg.

Bærinn þótti einkennandi fyrir byggingarstíl á þessu svæði og segir Gísli Sverrir að söknuður sé húsinu, líkt og með hverju húsi sem hverfur.

Hér má lesa um verkefnið Eyðibýli á Íslandi

Fréttir mbl.is um málið: 

„Þetta gerðist svo hratt“

Komst lífs af ásamt hundi sínum

Ófærð og eldur í eyðibýli

Áhugavert er að skyggnast inn í fortíðina með því að …
Áhugavert er að skyggnast inn í fortíðina með því að virða fyrir sér húsin sem hafa látið á sjá. Hér má sjá eyðibýlið Arnarnúp í Dýrafirði. Árni Sæberg
Margir velta eftlaust fyrir sér af hverju íbúarnir brugðu búi …
Margir velta eftlaust fyrir sér af hverju íbúarnir brugðu búi á sínum tíma. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert