„Þetta gerðist svo hratt“

Steinaborg í Berufirði.
Steinaborg í Berufirði. Skjáskot af vefnum ruv.is

„Það fór allt. Bara á örskammri stundu. Þetta tók innan við klukkutíma að brenna, alveg niður.“ Þetta segir Bergur Hrannar Guðmundsson, ábúandi á bænum Steinaborg í Berufirði, en bærinn brann til grunna á sjötta tímanum í gær.

Steinaborg hafði verið í eyði í áratugi þegar Bergur flutti inn síðasta sumar, en hann hugðist gera bæinn upp.

„Þetta gerðist svo hratt, maður gat ekkert gert,“ segir Bergur, sem dvelur nú á bænum Berunesi 1. Eldurinn kom upp í rjáfri hússins en Bergur segir líklegt að kviknað hafi í út frá röri frá kamínu sem hann notaði til að hita húsið.

„Ég er á efri hæðinni, í baðstofunni. Og svo sé ég bara allt í einu eldinn koma niður og þá bara ríf ég upp símann og hringi á neyðarlínuna,“ segir Bergur um það þegar hann varð eldsins var. „Svo reyndi ég að henda út einhverjum hlutum og leita að kettinum en fann hann ekki. Ég var að vonast til að hann hefði sloppið út, en það lítur út fyrir að það hafi ekki verið. Hann hafi farist þarna,“ segir hann.

Blessunarlega slapp hundur Bergs út úr húsinu áður en það brann.

Húsið var hrunið þegar slökkvilið mætti á vettvang, en nokkuð langt er í næsta þéttbýli. Þá liggur enginn vegslóði að bænum.

Bergur fór í dag ásamt Ólafi í Berunesi að skoða aðstæður. Ekkert stendur eftir nema hlaðinn grunnur hússins og tveir veggir sem stóðu fyrir aftan húsið og vestan við það. Þeir gengu frá plötum og öðru lauslegu og tryggðu fyrir vindi.

„Nú verður maður bara að reyna að sjá hvað hægt er að gera,“ segir Bergur um framhaldið. „Mig langar ofboðslega mikið, ef það er hægt, að halda áfram einhverri uppbyggingu. Það verður bara að ráðast. En það er mjög leiðinlegt ef þetta endar svona,“ segir hann.

Bergur segir að eftir eigi að koma í ljós hvort og hvernig bærinn var tryggður. „Nú kemur bara fjölskyldan saman og við förum yfir þessi mál,“ segir hann.

Rætt var við Berg í Landanum á RÚV nýlega, þar sem hann sagði frá búsetu sinni á Steinaborg.

Komst lífs af ásamt hundi sínum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert