Ekki nóg að taka eitt sýni

Ekkert kjöt reyndist vera í nautaböku frá Gæðakokkum árið 2013.
Ekkert kjöt reyndist vera í nautaböku frá Gæðakokkum árið 2013.

Fyrirtækið Kræsingar, áður Gæðakokkar, hefur verið sýknað af ákæru sem tengdist því að ekkert nautakjöt fannst í nautabökum frá fyrirtækinu. Dómari taldi ekki nægilegt að rannsaka aðeins eitt sýni úr bökum og að ekki væri hægt að útiloka að um óhapp hafi verið að ræða.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Vesturlands í byrjun febrúar en ákært var fyrir misræmi á milli innihalds og innihaldslýsingar kjötbakanna. DNA-rannsókn sem gerð var hjá Matís leiddi í ljós að ekkert var af nautakjöti í tveimur bökum sem rannsakaðar voru. Rannsóknin var gerð í kjölfar hrossakjötshneykslisins sem skók Evrópu árið 2013.

Að sögn Jóns Hauks Haukssonar, sækjandans í málinu, gerði dómarinn athugasemdir við rannsókn málsins því ekki hafi nægilega mörg sýni verið rannsökuð. Ekki væri hægt að útiloka að um óhapp væri að ræða og því bæri að sýkna fyrirtækið af ákærunni.

Hann segir erfitt að segja til um hvort að niðurstaða Héraðsdóms þýði að matvælaframleiðendur hafi eitthvað svigrúm hvað varðar innihald matvara miðað við það sem gefið er upp í innihaldslýsingum, að ekki þurfi endilega að vera ákveðin innihaldsefni til staðar í öllum eintökum matvöru.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Fyrri fréttir mbl.is:

Ekkert kjöt sjáanlegt í bökunni

Spilling í eftirlitskerfinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert