Leita að konu við Mýrdalsjökul

Björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli hafa leitað að konu við Mýrdalsjökul frá því fyrir miðnætti. Konan fór af stað á þriðjudag samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og hugðist fara á gönguskíðum í kringum jökulinn, það er upp austan við hann, fyrir hann norðanmegin og niður vestanmegin og ganga þar Mælifellssand og Emstrur.

Konan er með svokallað SPOT-tæki sem sendir skilaboð um staðsetningu á 12 tíma fresti. Hafði hún samið við vinkonu sína um að taka á móti tölvupósti frá tækinu og tekið fram að bærust ekki boð i þrjú skipti væri það merki um að hún þyrfti aðstoð. Síðustu boð frá henni bárust í hádeginu á föstudag. Konan er á fertugsaldri, erlend en búsett á Íslandi. Hún er mjög vön ferðalögum í erfiðum aðstæðum.

Björgunarsveitirnar notast bæði við vélsleða og snjóbíl við leitina. Hafa þær skoðað í skála á svæðinu og leitað út frá síðustu staðsetningu sem SPOT-tækið sendi. Veðurspá fyrir svæðið er mjög slæm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert