Samverustundir sem byggja upp

Lára G. Sigurðardóttir og Sigríður Arna Sigurðardóttir.
Lára G. Sigurðardóttir og Sigríður Arna Sigurðardóttir.

Þær Lára G. Sigurðardóttir og Sigríður Arna Sigurðardóttir halda úti gagnlegum vef sem hugsaður er fyrir fjölskyldufólk sem verja vill meiri tíma með börnum sínum. Sem mæður vita þær að það dýrmætasta sem foreldrar geta gefið börnum sínum er tími. Er hægt að verja nægilegum tíma með börnunum þar sem Íslendingar vinna fleiri vinnustundir að jafnaði en nágrannaþjóðirnar?

Þær Lára og Sigríður starfa báðar í heilbrigðisgeiranum. Lára er læknir og er nú í doktorsnámi í lýðheilsuvísindum og Sigríður er hjúkrunarfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu. Þær unnu á sama vinnustað fyrir um sex árum síðan og þá kviknaði áhugi þeirra á að vinna saman að verkefni utan vinnustaðarins. „Það var áhuginn á því að upplifa eitthvað nýtt með börnunum okkar sem leiddi okkur saman,“ segir Lára.

Vefur, bók og Facebooksíða

Bókin Útivist og afþreying fyrir börn: Reykjavík og nágrenni eftir þær Láru og Sigríði kom út fyrir rúmum tveimur árum. Auk þess að hafa gefið út veglega bók halda þær úti Facebooksíðu undir sama nafni og bókin og vefsíðunni www.samvera.is. „Á heimasíðunni bendum við á ýmsa viðburði og annað tengt fjölskyldufólki. Okkur fannst vanta svona upplýsingar fyrir fjölskyldur og það ýtir líka við manni sjálfum að láta ekki spennandi viðburði og annað fara framhjá sér,“ segir Lára. Ljóst er að mikil þörf var á síðu sem þessari.

Fylgjendur Facebooksíðunnar eru tæplega 4500 og vefsíðan er vel sótt. Sjálfar fylgjast þær vel með því sem er á döfinni en fá góða aðstoð frá dyggum lesendum. „Við fáum oft sendar ábendingar frá aðilum sem eru með áhugaverða viðburði eða annað sem hentar fjölskyldufólki. Það auðveldar okkur að fylgjast með og koma upplýsingum áleiðis,“ segir Lára og bætir því við að þetta sé sérstök ástríða hjá þeim vinkonum en báðar eru þær í fullri vinnu en sinna síðunum í frístundum.

Samkeppni við tölvurnar?

Ætli flestir foreldrar þekki það ekki að keppa við tölvurnar um athygli barnanna. Það er súrt í broti að tapa fyrir tölvunum og um að gera að snúa þessari þróun við. „Með því að fara af heimilinu og gera eitthvað saman þá finnst mér ég ná betur til barnanna. Maður tengist líka börnunum á annan hátt með því að vera í ólíkum aðstæðum. Eins og að sjá hvernig þau bregðast við ýmsum aðstæðum og þá fær maður líka tækifæri til að kenna þeim að takast á við ólíkar áskoranir, hverju maður þarf að gæta að og fleira,“ segir Lára.

Það er óhætt að taka undir það að hellaskoðunarleiðangur og sundferð á eftir skilur töluvert meira eftir sig en helgi þar sem hver og einn húkir í sínu horni, þó svo að ekkert sé að því að slaka á heima inn á milli. „Ég finn það að við verðum öll svo miklu glaðari eftir að hafa nýtt helgina í að gera eitthvað saman. Við eigum það alveg til að vera heima heilu helgarnar og það er líka gott inn á milli ef allir eru stemmdir fyrir því. Maður er oft þreyttur eftir langa vinnuviku og því getur verið gott að vera búinn að ákveða fyrirfram hvað maður ætlar að gera um helgina og segja börnunum frá því. Þá er sá tími frátekinn fyrir samveru. Núna er til dæmis á dagskrá að fara í Arnarker með vinafólki og enda í sundlauginni á Þorlákshöfn og er mikil spenna fyrir því,“ segir Lára.

Stundir sem seint gleymast

Um það hefur verið rætt að í samanburði við nágrannaþjóðirnar vinna Íslendingar töluvert fleiri vinnustundir að jafnaði í viku. Því má velta fyrir sér hvort það komi niður á þeim gæðastundum sem fjölskyldur vilja og þurfa að eiga saman. „Þetta er klárlega eitthvað sem þarf að ræða betur í þjóðfélaginu. Við vinnum miklu meira en nágrannaþjóðir okkar og eigum fleiri áhugamál. Eðlilega bitnar það á samverustundum barnanna en skýrsla frá 2009 í tengslum við forvarnardaginn sýndi að börn vilja að foreldrar taki meiri þátt í því sem þau gera fyrir utan skóla og íþróttastarf. Þau vilja hafa fjölskyldudag, borða kvöldmat saman, spjalla saman, skoða söfn og náttúruna ásamt fleiru.

Áratugalangar rannsóknir íslensks félagsvísindafólks hafa einnig sýnt að því meiri tíma sem börn verja með foreldrum sínum þeim mun minni líkur eru á að þau hefji neyslu áfengis og fíkniefna á unglingsárum. Og því lengur sem ungmenni sniðganga áfengi, þeim mun ólíklegra er að þau ánetjist fíkniefnum. Þegar börnin komast á unglingsaldurinn þá getur verið erfiðara að hafa áhrif á þau því foreldrar eru fyrirmyndirnar fram að unglingsárum þegar rokkstjörnur og aðrir fara að taka við því hlutverki,“ segir Lára G. Sigurðardóttir, annar höfundur bókarinnar Útivist og afþreying fyrir börn: Reykjavík og nágrenni.

Hún hvetur fólk til að fylgjast með því sem framundan er en því eru gerð skil á vefsíðunni www.samvera.is. Þegar vorar taka nýir hlutir við og má þar nefna fjölskyldudaginn og málþing.

Lára G. Sigurðardóttir og börnin hennar á góðum degi í …
Lára G. Sigurðardóttir og börnin hennar á góðum degi í Heið- mörk.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert