Rýming gildir til föstudags

Frá Patreksfirði í gær
Frá Patreksfirði í gær

Ákveðið hefur verið að rýmingu á Patreksfirði og Tálknfirði vegna snjóflóðahættu verði áfram í gildi  fram á föstudag, á morgun. Það þýðir að 71 íbúi í þeim húsum sem þurfti að rýma í gær, getur ekki snúið heim fyrr en á morgun. 

Á Pat­reks­firði þurftu 63 íbú­ar að yf­ir­gefa heim­ili sín og átta íbú­ar á Tálknafirði eða alls 71 íbúi. Marg­ir sem þurftu að rýma hús sín fengu inni hjá vin­um og ætt­ingj­um en rúm­lega 40 manns fengu inni á Foss­hót­eli á Pat­reks­firði í nótt og verða þar áfram, að sögn Davíðs Rúnars Gunnarssonar, formanns svæðisstjórnar á Patreksfirði. 

Aðspurður um hvort fólk hafi fengið að skreppa heim í dag segir Davíð svo ekki vera nema í neyðartilvikum þegar til að mynda fólk hefur þurft að sækja lyf. Þá hefur verið farið með það í fylgd björgunarsveitarmanna og öll bílaumferð er bönnuð.

Að sögn Davíðs hefur verið ágætt veður á Patreksfirði undanfarna klukkutíma, logn og sól, en talið er hætta á frekari flóðum á þessum slóðum. „Það hefur skafið töluvert í fjallið og aukið við snjó,“ segir Davíð. Rétt fyrir utan þorpið er hins vegar lægðarbakki

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu var lýst yfir á sunnanverðum Vestfjörðum í gær, miðvikudag og á norðanverðum Vestfjörðum í morgun, fimmtudag. Rýming er í gildi á reitum 4, 10 og hluta af reit 5 á Patreksfirði og einnig á reit 9 á Tálknafirði. Ekki er talin hætta í byggð á norðanverðum Vestfjörðum eins og er, en fylgst er með þróun í veðri.

Í gær var austan stormur víða um vestan- og sunnanvert landið. Mikil úrkoma var þá á sunnanverðum Vestfjörðum og um tíma á Austurlandi. Í dag, fimmtudag nær NA strengur inn á vestasta hluta Vestfjarða með ofankomu. Annars staðar verður skaplegra veður, nema helst á SA landi þar sem spáð er SA slyddu og snjókomu til fjalla. Vitað er um nokkur snjóflóð sem fallið hafa síðasta sólarhringinn á sunnanverðum Vestfjörðum og einnig lítil flóð í Bláfjöllum.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Norðaustan 20-28 m/s og snjókoma á Vestfjörðum, annars mun hægari vindur og él. Norðan 18-25 um landið V-vert eftir hádegi, en norðvestan 13-23 m/s víða um land í kvöld og þá snjókoma eða él N-til, en þurrt syðra. Hiti kringum frostmark. Lægir í nótt og fyrramálið. Norðlæg átt 5-13 um hádegi á morgun og dálítil él um landið norðanvert, annars bjart á köflum. Frost 0 til 6 stig.

Á Vestfjörðum er ófært á flestum fjallvegum og til Flateyrar og Suðureyrar. Súðavíkurhlíð er lokuð. Þungfært er í Ísafjarðardjúpi en snjóþekja og skafrenningur er á Þröskuldum og í Reykhólasveit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert