„Arðurinn tekinn frá þjóðinni“

Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, gerði hagnað sjávarútvegsfyrirtækisins HB Granda að umræðuefni sínu í óundirbúnum fyrirspurnartíma við Alþingi í morgun.

Í fyrradag birti HB Grandi uppgjör sitt fyrir árið 2014. Þar kemur fram að fyrirtækið hagnaðist um 5,5 millj­arða króna, á ár­inu 2014 og jókst hagnaðurinn um tæp­ar 200 millj­ón­ir króna milli ára.

Hagnaður fyr­ir af­skrift­ir og virðisrýrn­un (EBITDA) árs­ins 2014 var 49,9 millj­ón­ir evra, eða um 7,5 millj­arðar, og jókst um 700 millj­ón­ir milli ára.

Beindi Steingrímur fyrirspurnum sínum að Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og spurði hvort að þetta sýndi ekki að lækkun veiðigjalda hafi verið mistök.

Sagði hann það athyglisvert að hagnaður fyrirtækisins hafi aukist um 700 milljónir milli ára, en greidd veiðigjöld HB Granda lækkuðu einmitt um 700 milljónir milli ára eða 35%.

„Með öðrum orðum, framleiðnin vex um 700 milljónir sem er nákvæmlega sama tala og greidd veiðigjöld lækka um,“ sagði Steingrímur. „700 milljónir eru færðar frá auðlindarentu þjóðarinnar til eigenda HB Granda sem gera svo vel við sjálfan sig og greiða sér annað árið í röð um 2,7 milljarða króna í arð.“

Bætti hann við að eigendur HB Granda hafi greitt sér sex milljarða í arð síðustu tvö ár á meðan þjóðin hafi misst þrjá milljarða í veiðigjöld. „Var þetta ekki ofrausn að lækka gjöldin og taka svona mikinn arð frá þjóðinni?“ spurði  þingmaðurinn ráðherrann.

Í svari Sigurðs Inga benti hann á að það væri gleðileg staðreynd, hversu vel fyrirtækjunum gangi og að það sé undirstaðan að því að hér sé áfram velmegun, nýsköpun og aukin framlegð.

„Þetta tiltekna fyrirtæki er eitt af okkar öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum og er í gríðarlegum fjárfestingum,“ sagði Sigurður. „Ég tók eftir að háttvirtur þingmaður minntist ekki á laun eða skatta sem fyrirtækið greiðir á hverju ári, hvað þá skatta. Mig minnir að sjávarútvegurinn hafi á síðasta ári greitt tæpa 30 milljarðar í opinber gjöld.“

Lagði ráðherrann áherslu á mikilvægi þess að gleðjast hversu vel gangi og minnti þingmanninn á að 620 sjávarútvegsfyrirtæki séu á landinu. Sagði hann að hefðu menn haldið áfram á sömu braut og síðasta ríkisstjórn, sem hækkaði veiðigjöldin, hefðu mörg þeirra farið á hausinn.

„Þá hefðum við setið hér uppi með fimm fyrirtæki á við HB Granda í landinu og það er ekki minn vilji,“ sagði ráðherrann. „Ég vill að þessi 620 fyrirtæki geti blómstrað.“

Steingrímur svaraði og spurði hversu sanngjarnt það væri endurgjald þessara fyrirtækja fyrir sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Bætti hann við að engin fyrirstaða væri fyrir því að láta stærri fyrirtækin borga meira en þau minni.

„Sum fyrirtækjanna séu með óheyrilegan hagnað sem þau ættu sannarlega að greiða meira fyrir aðgang sin að þessari auðlind. Það er sanngjarnt og rétt,“ sagði þingmaðurinn að lokum.

Sigurður Ingi sagði það rangt hjá þingmanni að verið sé færa auðlindarentu frá  þjóðinni til tiltekna aðila. Gagnrýndi hann fyrri ríkisstjórn fyrir álögur lagðar á ýmis sjávarútvegsfyrirtæki sem einfaldlega gátu ekki greitt meira.

 „Þau voru sammála um það að þau væru að gefast upp. Þess vegna tókum við á  því og breyttum fyrirkomulaginu fljótlega á kjörtímabilinu og hver er afleiðingin af því? Hún var sú að stór fyrirtækin greiddu mun meira hlutfallslega en hjá fyrri ríkisstjórn sem  setti álögurnar á miklum þunga á þessi 610 fyrirtæki sem eru undanskilin þeim stóru.“

„Þegar það kemur að opinberri álagningu er mjög mikilvægt að það sé ákveðið jafnræði í því. Við höfum síðan skatta og reglur og önnur lög til að taka á öðrum hagnaði,“ sagði Sigurður.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert