Dópsíður á Facebook skila lögreglu árangri

Facebook hefur verið notað í auknum mæli í eiturlyfjaviðskiptum síðustu …
Facebook hefur verið notað í auknum mæli í eiturlyfjaviðskiptum síðustu ár. AFP

Borið hefur á því síðustu vikur og mánuði að Íslendingar séu að nálgast og selja eiturlyf á samfélagsmiðlum, þá sérstaklega Facebook. Eins og fram hefur komið í fréttum mbl.is notast eiturlyfjasalar oftast við leyninöfn þar sem þeir auglýsa efnin, sem eru allt frá kannabis yfir í lyfseðilskyld verkjalyf. Um helgina kom fram á mbl.is að sérstakur hópur væri á Facebook þar sem einblínt er á eiturlyfjasölu á Norðurlandi.

Að sögn Gunnars Jóhannesar Jóhannssonar, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri, hefur lögreglan orðið var við síður sem þessa og haft afskipti af þeim. Hann segir að síðurnar hafi skilað lögreglu ákveðnum árangri þegar það kemur að baráttunni við fíkniefni. 

„Þetta er alltaf í gangi á netinu og við reynum að fylgjast með svona síðum og hópum. Svona síður hafa skilað okkur ákveðnum upplýsingum en ef að ein síða er stöðvuð kemur önnur í staðinn,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is. 

„Sem betur fer ekki mikið um þetta hérna fyrir norðan en þetta teygir sig auðvitað út um allt land og allan heim.“

Hann segir að það sé þó mjög auðvelt fyrir eiturlyfjasala að fela slóð sína á þessum síðum, enda er yfirleitt notast við fölsk nöfn. „Það er aðallega þegar símanúmer fylgja færslunum sem hægt er að rekja eitthvað. En það hefur samt verið erfitt þar sem oft á tíðum eru þetta óskráð og órekjanleg númer,“ segir Gunnar.

Hann segist hafa orðið var við ákveðna breytingu þegar það kemur að eiturlyfjaviðskiptum síðustu ár. Hafa viðskiptin færst í aukana á samfélagsmiðlum og eru minna stunduð í gegnum síma. „Síðustu ár hefur þetta þróast yfir í samfélagsmiðlanna, ekki bara Facebook heldur einnig miðla eins og Twitter og Snapchat,“ segir Gunnar. „Þetta er auðvitað bara verslunarmátinn í nútímaþjóðfélagi.“

Fyrri fréttir mbl.is

Norðlensk fíkniefni á Facebook

Selja vopn og fíkniefni á Facebook

„Þetta er alltof lítið mál“

Handteknir fyrir dópsölu á Facebook

Kannabis plöntur.
Kannabis plöntur. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert