Matarsóun ekki minna vandamál hér

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert

„Matarsóun hefur ekki verið skilgreind sérstaklega hér á landi í lögum eða reglugerðum,“ segir í svari Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra við skriflegri fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar. Þá séu ekki til áreiðanlegar tölur um umfang matarsóunar hér á landi.

Ráðherrann var spurður að því hvort hann teldi matarsóun vera vandamál á Íslandi og hvernig ætti að bregðast við ef svo væri. Sigrún segir í svari sínu að í ljósi reynslu annarra ríkja og erlendra rannsókna verði að gera ráð fyrir að matarsóun sé ekki minna vandamál á Íslandi en annars staðar. Starfshópur hafi meðal annars verið settur á laggirnar síðasta haust til þess að móta tillögur um það hvernig draga megi úr sóun matvæla. Hópnum sé til að mynda ætlað að benda á hvetjandi leiðir til þess að nýta hráefni betur við vinnslu matvæla sem og fullunnar matvörur eftir að þær skila sér til neytenda, veitingastaða, framleiðenda og söluaðila.

„Hópurinn skal jafnframt vinna tillögur um hvernig auka megi fræðslu um matarsóun, m.a. áhrif umbúða og skammtastærða. Loks skal starfshópurinn meta hvaða stjórntæki geta gagnast við að draga úr matarsóun og hvort þörf sé á breytingum á lögum og reglum sem áhrif geta haft á sóun matvæla. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili skýrslu til ráðherra með tillögum til úrbóta á degi umhverfisins 25. apríl 2015,“ segir ennfremur í svarinu. Til skoðunar sé í ráðuneytinu hvort rannsaka eigi umfang matarsóunar en ekki hafi verið tekin ákvörðun í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert