Ræðir við Emmu Watson um jafnrétti

Breska leikkonan Emma Watson hefur verið áberandi í umræðunni um …
Breska leikkonan Emma Watson hefur verið áberandi í umræðunni um jafnréttismál undanfarið. AFP

Jafnrétti kynjanna hefur lengi verið Tómasi Gauta Jóhannssyni, 22 ára gömlum Seltirningi, hugleikið. Í dag gefst honum tækifæri til að ræða þetta mikilvæga málefni við stórleikkonuna Emmu Watson, en Tómas var valinn úr sex þúsund manna hópi til þess að sitja ráðstefnu á vegum UN Women í höfuðstöðvum Facebook í Lundúnum.

Sýnt verður beint frá ráðstefnunni á Facebook klukkan fimm síðdegis í dag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Aðalgestur ráðstefnunnar er, eins og áður sagði, Emma Watson og gefst öðrum ráðstefnugestum kostur á að spyrja hana spjörunum úr um jafnréttismál.

Fyrr í vikunni birti Emma myndband á Facebook-síðu sína þar sem hún hvatti fólk til þess að sækja um að fá að koma á ráðstefnuna. Umsókninni þurfti að fylgja 500 orða rökstuðningur, þar sem umsækjendum var gert að svara ýmsum spurningum um jafnrétti kynjanna og jafnframt að tiltaka fáein dæmi um spurningar sem þeir væru reiðubúnir til að spyrja Emmu.

„Það var algjör tilviljun að ég rakst á þetta,“ segir Tómas í samtali við mbl.is. „Ég var að klára vinnuna þennan daginn og rakst á þetta á Facebook. Ég skoðaði þetta í flýti og kveikti hugmyndin strax áhuga minn. Ég reyni að vera duglegur að sækja um að fá að taka þátt í svona stórum „keppnum“, sérstaklega sem varða hluti sem ég hef virkilegan áhuga á. Auðvitað vinnur maður aldrei neitt, en loksins gerðist það,“ segir hann.

Sótti um á þriðjudaginn

Tómas var nefnilega einn af þeim hundrað sem voru valdir úr sex þúsund manna hópi umsækjenda. Þetta var fljótt að gerast. Hann sótti um seinasta þriðjudag, fékk að vita að hann hafði verið valinn tveimur dögum síðar og var loks kominn til Lundúna í gær, laugardag.

„Ég viðurkenni það fúslega að þegar ég las fyrstu línuna um að maður ætti möguleika á að hitta Emmu Watson, þá greip það athygli mína. Svo límdist ég við skjáinn þegar ég sá að maður átti möguleika á að fara á stærstu ráðstefnu sem haldin er á þessum degi, hinum alþjóðlega baráttudegi kvenna, og spyrja Emmu Watson út í jafnréttismál. Ég hef lengi haft áhuga á jafnrétti og femínisma svo ég greip tækifærið, settist niður og skrifaði mínar hugleiðingar og hvað ég hef gert,“ segir hann.

Hefndarklám eitt erfiðasta vandamálið

En um hvaða mál vill Tómas ræða við Emmu?

„Í umsókninni minni vildi ég forvitnast um hvað Emma vill sjá að bresk stjórnvöld og önnur vestræn ríki geri til að bregðast við hefndarklámi,“ svarar hann til. „Hefndarklám er reyndar fáranlegt orð yfir þetta fyrirbæri, því það gefur til kynna að konan hafi gert etthvað af sér svo að myndum af henni sé dreift, en það er yfirleitt ekki tilfellið. Hefndarklám er eitt flóknasta og erfiðasta vandamálið sem við er að glíma í netheimunum í dag. Það er svo ótrúlega erfitt að stöðva þetta og stjórnvöld virðast ekki hafa hugmynd um hvað þau geti gert. Með aukinni tækni verður þetta erfiðara og stærra vandamál.“

Hann bendir þó, í dæmaskyni, á frumvarp sem þingmenn Bjartrar framtíðar hafa lagt fram á Alþingi þar sem lagt er til að hefndarklám verði gert refsinæmt að lögum. Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarin misseri, bæði hér heima og erlendis, um hefndarklám og sagðist fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, Björt Ólafsdóttir, í samtali við mbl.is skynja þverpólitískan stuðning á Alþingi við að leggja bann við hefndarklámi.

Frelsið eykst með auknu jafnrétti

Tómas segist lengi hafa verið hræddur við að nota orð á borð við jafnrétti og femínisma, en eftir að hafa kynnt sér málin betur hafi afstaða hans orðið önnur.

„Jafnréttismál eru mér hugleikin vegna þess að ég trúi því að með jafnrétti skapist miklu fleiri tækifæri. Það er kannski ekki enn viðurkennt í samfélaginu að strákar fari til dæmis í ballett eða klæðist bleikum sokkum. Það er alveg jafn fáránlegt og að trúa því að konur geti ekki verið flugmenn. Með auknu jafnrétti eykst frelsið, tækifærum fjölgar og ofbeldi minnkar.”

En það er ekki nóg með að Tómasi hafi verið boðið á ráðstefnuna, heldur fær hann enn fremur að hitta átrúnaðargoð sitt til margra ára, Emmu Watson, sem hefur ávallt verið í miklu uppáhaldi hjá honum. „Vinir mínir hafa strítt mér út af þessu, en það vita margir sem þekkja mig að ég var eitt sinn skotinn í Emmu. Það hefði örugglega liðið yfir mig ef ég hefði fengið að hitta hana þegar ég var í grunnskóla.“

Eins og kunnugt er hefur Emma verið áberandi í umræðunni um jafnréttismál og er vert að minnast ræðu hennar við upphaf HeForShe-herferðar UN Women sem vakti mikla athygli um allan heim. 

Í ræðunni sagði Watson meðal annars að karlmenn upplifðu ekki jafnrétti frekar en konur. „Við viljum gjarnan ekki tala um að karlmenn séu fastir í einhverjum steríótýpískum hugmyndum um karlmennsku, en þeir eru það samt. Þegar þeir verða frjálsir, þá fara hjólin að snúast fyrir konurnar. Ef karlmenn þurfa ekki að vega ágengir, þá þurfa konur ekki að vera undirgefnar,“ sagði Emma eftirminnilega í ræðu sinni.

Tómas Gauti á leiðinni út á flugvöll í gær.
Tómas Gauti á leiðinni út á flugvöll í gær. Ljósmynd/Úr einkasafni
Emma Watson og Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, á samkomu …
Emma Watson og Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, á samkomu UN Women seinasta sumar. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert