Enn lokað um Hellisheiði

Hellisheiði. Myndin er úr safni.
Hellisheiði. Myndin er úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Enn er lokað um Hellisheiði, en samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni stendur til að opna veginn um Sandskeið og Þrengsli klukkan 00:30.

Á morgun er gert ráð fyrir sunnan átt, 10 til 20 metrum á sekúndu. Hvassast verður norðvestan ti. Í fyrramálið verður suðvestan átt vestan til á landinu þar sem vindstyrkur verður á bilinu 10 til 18 metrar á sekúndur. Verður minnkandi éljagangur og lægir eftir hádegið. Á austanverðu landinu verður sunnan- og síðan vestanátt og vindstyrkur 3 til 10 metrar á sekúndu og úrkomulítið. Gert er ráð fyrir vægu frosti víðast hvar.

 Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni er hálka og éljagangur er á Mosfellsheiði en þæfingsfærð og skafrenningur er á Gjábakka. Ófært er á Krísuvíkurvegi. Á Suðurlandi er snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum þó er þæfingsfærð efst á Landvegi. Hálkublettir og óveður er á Suðurstrandavegi og snjóþekja og óveður undir Eyjafjöllum.

Á Vesturlandi er snjóþekja eða hálku með éljagangi og skafrenningi. Ófært er á Bröttubrekku en hálka og óveður á Holtavörðuheiði. Hálka og óveður er á Vatnaleið og í Kolgrafafirði. Ófært er á Fróðárheiði og í Staðarsveit. Lokað í Búlandshöfða. Hálka og óveður er á Mýrum. Ófært er í Hvalfirði.

Á Vestfjörðum er víða hálka og snjóþekja og skafrenningur.  Ófært og stórhríð er á Gemlufallsheiði. Snjóþekja og éljagangur er á Flateyrarvegi og í Súgandafirði. Ófært er frá Ísafriði og inn í Súðavík en þungfært í Ísafjarðardjúpi. Steingrímsfjarðarheiði er lokuð og ófært og stórhríð á Þröskuldum. Þungfært og stórhríð er á Hjallháls. Ófært og stórhríð er á Klettsháls, Hálfdáni, Mikladal og Kleifaheiði.

Það er hálka eða hálkublettir á Norðurlandi vestra. Snjóþekja og stórhríð er á Öxnadalsheiði. Á Norðausturlandi er hálka eða hálkublettir og skafrenningi. Hálka og óveður er á Hólasandi, Hálsum og á Mývatnsöræfum.

Á Austurlandi er ófært á Fjarðarheiði og í Oddskarði. Hálka og óveður er á Vatnskarði eystra. Hálka eða snjóþekja er með suðausturströndinni og sumstaðar éljar. Snjóþekja og stórhríð er í Öræfum. Hálkublettir og Óveður er á Mýrdalssandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert