Vonskuveður fram á kvöld

Búist er við áframhaldandi vonskuveðri seinnipartinn í dag, en að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands er gert ráð fyrir því að það muni lægja í kvöld. Suðaustanáttin gengur yfir á milli klukkan 18 og 20, en þá taka við tvær klukkustundir af hvassri sunnanátt og loks gengur veður niður sunnan og vestanlands.

„Þetta gengur til norðurs og það hvessir á norður og austurlandi eftir klukkan 18 en svo á miðnætti er þetta allt gengið hjá,“ segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofunni. Þá segir hún allt líta út fyrir storm á norður og austurlandi í kvöld.

Óveðrið hefur haft gríðarleg áhrif á umferð á höfuðborgarsvæðinu og í nærliggjandi sveitarfélögum. Hellisheiðin og Reykjanesbrautin eru lokaðar en þar sitja tugir ökumanna fastir. Þá hafa fjöldi árekstra orðið í höfuðborginni, og útafkeyrslur átt sér stað á Reykjanesbrautinni. Allt tiltækt lið björgunarsveitarmanna hefur verið kallað út til að aðstoða vegfarendur.

Miklar annir hjá björgunarsveitum

Mikið hefur verið að gera hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í dag vegna ófærðar víða um land. Um 250 björgunarsveitamenn taka nú þátt í ófærðaraðstoð.

Sé fjöldi þeirra sem þurfa aðstoð mælikvarðinn hefur ástandið verið einna verst fyrir austan fjall og í uppsveitum Árnessýslu. Á Hellisheiði, í Þrengslum og á Lyngdalsheiði hefur fjöldi bifreiða setið fastur eða verið ekið út af vegi. Á leið til og frá Gullfossi, Geysi og á Þingvöllum  er t.a.m. gríðarlegur fjöldi bíla og rúta fastur og telja stjórnendur aðgerða að þeir séu a.m.k. vel á annað hundraðið. Vel hefur gengið að aðstoða ferðafólkið samkvæmt fréttatilkynningu frá Landsbjörgu.

Lokanir víða um land

Búið er að loka veginum um Reykjanesbraut, Hellisheiði, Sandskeið, Þrengsli, Kjalarnes og Mosfellsheiði. þungfært er á Krísuvíkurvegi. Á suðurlandi en er þæfingsfærð með skafrenningi frá Þjórsá að Hvolsvelli einnig efst á Landvegi. Óveður er undir Ingólfsfjalli og undir Eyjafjöllum.

Á Vesturlandi er versnandi veður og mikið um snjóþekju, hálku með éljagangi og skafrenningi. Lokað er undir Hafnarfjalli. Þæfingsfærð og sórhríð á öllum leiðum í kringum Akranes. Ófært er á Bröttubrekku og á Holtavörðuheiði. Ófært er á Mýrunum, í Kolgrafafirði, Fróðárheiði og lokað í Búlandshöfða en þæfingsfærð og skafrenningi er í Staðarsveit. Ófært er norðan megin í Hvalfirðinum.

 Á Vestfjörðum er víða hálka og snjóþekja og skafrenningur. Snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Ófært og stórhríð er á Hálfdáni, Mikladal og Kleifaheiði. Það er hálka, snjóþekja eða hálkublettir á Norðurlandi. Á Austurlandi eru hálkublettir. Hálka eða snjóþekja er með suðausturströndinni og sumstaðar éljar.

„Þetta er varhugavert“

Að sögn Elínar verður veður ágætt á morgun, en á fimmtudag er von á næstu lægð. „Það verður lægðagangur um helgina svo þetta er varhugavert. Það er ekki hægt að skipuleggja ferðir langt fram í tímann án þess að skoða veðurspánna.“

Vonskuveður sem spáð er á föstudag gæti verið í svipuðum dúr og óveðrið sem nú gengur yfir að sögn Elínar, en hún segir þó erfitt að segja til um veður næstu daga þar sem spáin breytist hratt. „Við sjáum yfirleitt ekki lokaútgáfu fyrr en daginn áður en á föstudag má búast við ansi hvassri sunnanátt, en hún gæti verið hlýrri en sú sem gengur yfir núna með aðeins meiri rigningu en snjókomu.“

Þá segir hún mikilvægt að brýna fyrir ökumönnum að fylgjast með veðri. 

Veðurspá næsta sólarhringinn:

Suðaustan 18-28 m/s með mjög snörpum vindhviðum við fjöll S- og V-lands en hvessir N- og A-til í kvöld. Snjókoma í fyrstu, en síðan slydda eða rigning á láglendi. Talsverð úrkoma á S-verðu landinu og hlýnar um stund, en úrkomuminna NA-til. Snýst í sunnan 13-25 með slydduéljum í kvöld, hvassast vestantil og kólnar aftur. Hægari um miðnætti. SV 10-18 vestantil í fyrramálið og minnkandi éljagangur en lægir eftir hádegi. S og síðan V 3-10 um A-vert landið og úrkomulítið. Vægt frost víðast hvar.
Veðurspá gerð 10.03.2015 15:30

Búist er við vonskuveðri fram á nótt. Skyggni verður lélegt vegna snjókomu og skafrennings og má búast við samgöngutruflunum á láglendi sem og á fjallvegum. Veðrið gengur yfir S- og V-lands í kvöld en um miðnætti NA-lands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á fimmtudag:
Suðaustlæg átt, 5-13 m/s og snjókoma eða slydda sunnantil en úrkomulítið norðan heiða. Vaxandi SA-átt síðdegis, 15-20 m/s og talsverð rigning eða slydda um kvöldið einkum SA-til. Hiti um frostmark, en 0 til 4 stig syðst.

Á föstudag:
Vestlæg átt og víða lítilsháttar snjókoma fyrir hádegi en gengur í suðaustan storm seinnipartinn með rigningu, einkum S- og V-lands og hlýnar.

Á laugardag:
Suðlæg átt, fremur milt og talsverð rigning S og SA-landi en kólnar um landið V-vert með éljum eftir hádegi. Úrkomulítið NA-til framan af degi. Kólnandi, og hiti um frostmark um kvöldið.

Á sunnudag:
Hægviðri í fyrstu en gengur í hvassa sunnanátt með vætusömu og hlýnandi veðri.

Á mánudag:
Útlit fyrir suðlæga átt með rigningu eð slyddu SA-til, en annars úrkomulítið. Hiti 0 til 5 stig.

mbl.is/Þórður
Mikil umferðarteppa hefur myndast við Kórinn í Kópavogi.
Mikil umferðarteppa hefur myndast við Kórinn í Kópavogi. Ljósmynd/Valeria Sig
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert