Bréfið verði dregið til baka

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Helgi Hjörvar, sagði á Alþingi í dag að krafa stjórnarandstöðunnar væri að bréf ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins, um að Ísland væri ekki lengur skilgreint sem umsóknarríki að sambandinu, yrði dregið til baka enda hefði það enga þýðingu. Umsókn landsins væri enn í fullu gildi.

Helgi fór hörðum orðum um framgöngu ríkisstjórnarinnar í málinu og sagði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hafa grafið undan Alþingi með því að svíkja kosningaloforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins. Lágmarkskrafa væri að hann spillti ekki fyrir möguleikum næsta þings til þess að halda málinu áfram.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagði tíðindi dagsins að einungis Alþingi gæti slitið viðræðunum um inngöngu í Evrópusambandið. Hann sagðist þeirrar skoðunar að verulegum árangri hefði verið náð í viðræðunum og ef þeim hefði verið haldið áfram væri líklega samningur á borðinu í dag sem hægt hefði verið að kjósa um.

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði málflutning forystumanna ríkisstjórnarinnar í málinu ganga í ýmsar áttir. Þá sagði hún ljóst að ef vafi væri á því að þingsályktanir Alþingis væru í gildi bæri að túlka málið lýðræðinu í vil. Hins vegar væri tilhneiging til þess að túlka slíkt framkvæmdavaldinu í vil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert