Stjórnarandstaðan þorði ekki að kjósa

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, flutti munnlega skýrslu um Evrópumál á …
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, flutti munnlega skýrslu um Evrópumál á þingfundi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra spurði á þingfundi í dag hversu oft Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefði farið upp í ræðustól þegar ríkisstjórnin lagði fram þingsályktunartillögu fyrr á kjörtímabilinu um slit aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Þetta kom fram í svari utanríkisráðherra til Helga sem spurði Gunnar hvernig hann vissi að hann hefði meirihluta fyrir afturköllun aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið í ljósi þess að þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar hefði ekki náð fram að ganga, sér í lagi í ljósi þess að Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, sé þingmaður sjálfstæðismanna.

Gunnar Bragi sagði það alveg ljóst að tillaga ríkisstjórnarinnar hefði verið tekin í gíslingu af stjórnarandstöðunni þegar hún var lögð fram og að stjórnarandstaðan hefði þannig komið í veg fyrir að lýðræðislega meðferð tillögunnar á þinginu. Gunnar sagði stjórnarandstöðuna ekki hafa þorað að kjósa um tillöguna en á sama tíma óski sama stjórnarandstaða eftir því að fá að kjósa um þingsályktunartillöguna.

Helgi Hrafn veitti utanríkisráðherra andsvar og sagði Helgi svar utanríkisráðherra fela í sér vantraust á þingið, þar sem utanríkisráðherra notaði það, að þinginu væri ekki treystandi fyrir tillögunni sem afsökun fyrir því að fara hjá þinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert