„Svo gerist ekkert í kjölfarið“

Félagsfælni er eitt af því sem kveikja á viðvörunarljós hjá …
Félagsfælni er eitt af því sem kveikja á viðvörunarljós hjá foreldrum mbl.is/Golli

Þrátt fyrir að 75% þeirra sem eru með geðraskanir séu greind fyrir 25 ára aldur þá vantar mikið upp á að þessum hópi sé nægjanlega sinnt. Því það er ekki nóg að greina börn og unglinga með geðraskanir heldur þarf að fylgja vandanum eftir. En stundum er það þannig að það gerist ekkert í kjölfarið. Þetta er meðal þess sem var rætt á fundi Náum áttum, samstarfshóps um fræðslu og forvarnarmál í morgun. Umræðuefni fundarins var geðheilbrigði barna.

Hvernig er fjármagninu varið?

Þeir sem töluðu á fundinum voru sammála um að það væri alvarlegur skortur á fjármagni svo hægt væri að sinna börnum sem glíma við geðraskanir og annan vanda. Sú spurning kom upp á fundinum um hversu miklum fjármunum væri varið af hálfu hins opinbera í úrræði fyrir ungt fólk með geðraskanir en þar sem það var enginn frá velferðarráðuneytinu eða Sjúkratryggingum Íslands á fundinum fékkst ekki svar við spurningunni.  

Bent var á að meðal þess sem gagnrýnt er af barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna á Íslandi er skortur á gagnaöflun um hvernig fjármunum er ráðstafað. Eins hefur nefndin lýst yfir áhyggjum yfir niðurskurði til mennta- og heilbrigðiskerfisins. Gera þurfi ráðstafanir til að mæta þörfum barna með sérþarfir. Áhyggjuefni að niðurskurður komi niður á þeim.

Skortir upp á eftirfylgni 

Fundargestir bentu á að þegar bið eftir greiningu væri lokið þá væri alls ekki búið að leysa vandann því mikið skorti á eftirfylgni og framtíðarsýn. Þegar grunnskóla lýkur týnast krakkarnir í kerfinu en þeirra vanda er alls ekki lokið. Því er mikilvægt að fylgja þeim eftir allt til átján ára aldurs, líkt og unnið er að í Breiðholti í samstarfsverkefni þjónustumiðstöðvar Breiðholts og Fjölbrautaskólans í Breiðholti, segir Hákon Sigursteinsson, sálfræðingur hjá þjónustumiðstöð Breiðholts. 

400-500 mál árlega til Sjónarhóls

Að sögn Maríu Hildiþórsdóttur, framkvæmdastjóra Sjónarhóls, eru 400-450 mál skráð hjá Sjónarhóli á hverju ári en Sjónarhóll er ráðgjafarmiðstöð fyrir foreldra barna með sérþarfir og skiptir þar engu hver aldur barnanna er. 

Milli 70-80% barna sem eru skráð hjá Sjónarhóli eru með meira en eina greiningu og sum þeirra með fjölmargar greiningar. Á milli  60-70% foreldra sem leita til Sjónarhóls gera það vegna drengja en um fimmtán ára aldur breytist þetta og hlutfall kynjanna jafnast.

Flestir með ADHD og á einhverfurófi

Flestir sem leita til Sjónarhóls eiga börn með ADHD eða á einhverfurófi. Margir hafa samband áður en greining liggur fyrir enda biðlistarnir eftir greiningu oft langir. Hún segir að samkvæmt flokkunarkerfi Sjónarhóls leiti ekki margir til þeirra vegna barna með geðraskanir en oft liggur ekki sú greining fyrir heldur er geðröskunin oft tengd öðrum röskunum.

Hún segir að erindin séu margvísleg en einhverjir foreldrar kvarta undan samskiptum við skóla, skorti á stuðningsúrræðum og að ekki sé hlustað á þá þegar þeir reyna að fá aðstoð fyrir börn sín.

Vera vakandi þegar viðvörunarljósin kvikna

Að sögn Maríu er ýmislegt í fari og framkomu barna sem eigi að kveikja fyrstu viðvörunarljósin hjá foreldrum og forráðamönnum sem og skólum. Til að mynda félagsfælni barna, ítrekuð veikindi og kvíði. Hún bendir á að þrátt fyrir að algengt sé að leitað sé til Sjónarhóls vegna barna með ADHD megi ekki gleyma því að þau geta verið ólík og komi frá ólíkum heimilum. 

En börn sem eiga við vanda að stríða leita oft á náðir tölvunnar og hún verður þeirra tengiliður við umhverfið. Sum þeirra finna síðan  tímabundna laust í vímuefnum og einhver þeirra enda í enn verri málum.

„Kvíðastelpur“ valda foreldrum áhyggjum

En það eru ekki bara þeir sem eru með ADHD sem eru ólíkur hópur því það er það sama upp á teningnum hjá börnum á einhverfurófi. Mörg þeirra, til að mynda þau sem eru með aspergerheilkennið, fara auðveldlega í gegnum grunnskóla og standa sig námslega vel. En þau eru vinafá, oft „nördar“ sem njóta virðingar sem slíkir en eru um leið einfarar. 

Hún ræddi um unglinga sem eru félagslega einangraðir, sem geta ekki lesið í félagsleg samskipti og eiga jafnvel í miklum skynjunarvanda þar sem öllu slær saman. Þetta eru oft börnin sem detta fyrst út úr skólakerfinu enda mörg í neyslu og það jafnvel mikilli neyslu. 

Svo eru það stúlkur sem ganga undir heitinu „kvíðastelpur“ en það eru stelpur (yfirleitt þó svo að það séu líka til kvíðastrákar) sem láta lítið fyrir sér fara. Þetta eru krakkar sem fer mjög lítið fyrir og eru oftast toppnemendur sem gengur vel í öllu. En á sama tíma eru þær  kvíðnar en sá kvíði birtist oft bara heima við. Eðlilega veldur þetta foreldrum áhyggjum og nauðsynlegt að bregðast við áður en vandinn eykst.

Sjónarhóll reynir að finna leið með foreldrum um hvað eigi að gera næst. Haft er samband við skóla og skólastjórnendur og kerfið í kring. „Okkar hlutverk er aðallega að styðja foreldrana. Því þeirra upplifun er sú að ekki hafi verið hlustað á þau en með aðkomu Sjónarhóls fái þeirra rödd að heyrast,“ segir María. 

5-10% með alvarlegar geðraskanir

Sigrún Daníelsdóttir, verkefnisstjóri geðræktar hjá Landlæknisembættinu, segir að almennt sé talið að 15-20% barna glími við væg til miðlungs alvarleg vandamál og 5-10% alvarlegan geðrænan vanda sem kallar á sérhæfða þjónustu. Um 10% leikskólabarna eru með geðraskanir og 8% barna er með ADHD.

Að sögn Sigrúnar eiga allt að 20% barna erfitt og það sé spurning um hvað þurfi að gera til þess að bregðast við. Góð geðheilsa er grundvöllur allra lífsgæða. 

Sigrún segir að helmingur geðraskana sé greindur fyrir fimmtán ára aldur og 75% geðraskana fyrir 25 ára aldur. Þar sem börn verja æskunni að mestu í skóla og á heimilinu sé mikilvægt að skapa fjölskylduvænar aðstæður í samfélaginu þar sem fólk fær stuðning um leið og eitthvað bjátar á. Mikilvægt sé að auka samveru og nánd milli barna og foreldra og að gripið sé inn ef eitthvað bjátar þar á og vanlíðan tekur yfir. 

Hún bendir á að það sé allt of mikil einföldun að segja að geðheilbrigði sé eitthvað meðfætt. Því geðheilbrigði, líkt og líkamleg heilsa, byggist á mörgum samverkandi þáttum og það er hægt að kenna hegðun sem bætir líðan barna og um leið að kenna þeim aðferðir til þess að láta sér líða betur.

Uppeldishlutverkið að færast til skólanna

Að sögn Sigrúnar er það viðurkennt að efla eigi heilsu og velferð barna á sama tíma og uppeldishlutverkið er að miklu leyti komið inn í skólana. Það er að þeirra hlutverk hefur verið víkkað út - er ekki lengur fræðsla heldur einnig sá staður sem sinnir uppeldishlutverkinu ásamt fjölskyldunni. 3-12% grunnskólabarna þarf á meðferð sérfræðinga að halda. Aðstoð sem ekki er hlutverk skólans. En nauðsynlegt að það sé gott samstarf milli þeirra sem þar koma að. En það ber að sama brunni - það skortir fjármagn og úrræði í velferð barna, segir Sigrún og ítrekar að hvergi sé jafn vel hlúð að börnum og í skólakerfinu sem í flestum tilvikum vilja gera allt sem hæg er. En það hafi því miður ekki verið hlúð nægjanlega að skólakerfinu og heimilunum varðandi geðheilbrigði barna. 

Haft samband við foreldra barna sem vilja deyja

Hákon Sigursteinsson, sálfræðingur hjá þjónustumiðstöð Breiðholts, segir að sveitarfélögin hafi vanrækt hlutverk sitt með tilliti til geðheilbrigðis og sértækra forvarna fyrir börn og ungmenni.

Hjá þjónustumiðstöð Breiðholts hefur verið gerð skimun meðal níundu bekkinga í sex ár, yfir 1.200 börn hafa fengið slíka skimun. Að sögn Hákons er haft samband við foreldra ef eitthvað bjátar á. Til að mynda er strax hringt í foreldra þeirra barna sem segjast vilja deyja. Um 15% þeirra sem fá skimun koma það illa út að haft er samband við foreldra þeirra og þeir boðaðir í viðtal.

Hann segir að það sé ákveðin stígandi í kvíðaeinkennum ungmennanna en ákveðnum toppi hafi verið náð 2012 og öðrum 2014. Í nóvember sl. hafi komið stór toppur í þunglyndismælingu ungmenna í Breiðholti. Hákon segir það lykilatriði að veita skólum og heimilum aðstoð. Það sé ekki nóg að setja nýjar reglugerðir ef þeim fylgi ekki fjármagn. „Þetta gerist ekki án fjármagns,“ segir Hákon.

Það er mikilvægt að heimilin og skólar vinni saman þegar …
Það er mikilvægt að heimilin og skólar vinni saman þegar kemur að vandamálum tengdum geðheilbrigði barna en fjármagnið verður að vera til staðar annars gerist ekki neitt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Fjölmargir foreldrar leita til Sjónarhóls vegna vanda barna.
Fjölmargir foreldrar leita til Sjónarhóls vegna vanda barna. mbl.is/Golli
Kristján Kristjánsson
Uppeldishlutverkið er smátt og smátt að færast til skólanna.
Uppeldishlutverkið er smátt og smátt að færast til skólanna. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Hvergi er jafn vel hlúð að börnum og í skólunum, …
Hvergi er jafn vel hlúð að börnum og í skólunum, segir sérfræðingur hjá landlæknisembættinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert