Íslensk kvikmyndasinfóníusveit í Hofi

Ljósmynd/Ragnhildur Adalsteinsdottir

Sérhæfðri stúdíóhljómsveit sem skipuð er fólki úr Sinfóníuhljómsveit Norðurlands verður hleypt af stokkunum næsta sunnudag. Þessu greinir frá á vef Akureyri Vikublaðs en þar kemur fram að sveitinni sé ætlað að laða að verkefni í kvikmyndageira og tónlistariðnaði norður á Akureyri í Hof.

Vinnuheiti sveitarinnar er The Arctic Cinematic Orchestra og er þegar kominn verkefnalisti en mun hljómsveitin m.a. njóta tengsla við Akureyringinn Atla Örvarsson, sem gert hefur það gott sem kvikmyndatónskáld í Hollywood.

Í næsta mánuði mun sveitin taka upp kvikmyndatónlist úr „The perfect Guy“ sem gefin er út af Sony en Atli er tónskáld myndarinnar. Næsta sunnudag verður tekin upp tónlist fyrir Disney fyrir sýningu söngkonunnar Gretu Salóme vestan hafs. Annað sem er á döfinni hjá sveitinni eru upptökur á 100 ára afmælislagi íþróttafélagsins Þórs.

Nýráðinn tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, er forsvarsmaður útrásarinnar og segir hann í samtali við Akureyri vikublað mikla möguleika á að laða að verkefni úr kvikmynda- og tónlistargeiranum í Hof. 

„Hof er í raun risastórt hljóðver, búið öllum nútíma upptökutækjum og frábærum rýmum hvað hljómburð varðar. Öll rýmin eru tengd hljóðveri hússins svo möguleikarnir eru miklir,“ segir Þorvaldur.

 Erlend verkefni munu njóta sömu kjara og kvikmyndafyrirtæki sem taka upp kvikmyndir á Íslandi samkvæmt Akureyri Vikublað. Þar skiptir ekki síst máli endurgreiðsla á virðisaukaskatti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert