Útlit fyrir hægfara en stöðugan bata

Bjarni Benediktsson er fjármálaráðherra. Fram kemur í áætluninni, að gangi …
Bjarni Benediktsson er fjármálaráðherra. Fram kemur í áætluninni, að gangi hagspár eftir verði núverandi tímabil eitt lengsta hagvaxtarskeið í seinni tíma hagsögu Íslands. Við þessar hagfelldu aðstæður í hagkerfinu sé unnið að losun fjármagnshafta mbl.is/Eggert

Umskipti í ríkisfjármálum með stöðvun hallarekstrar og skuldasöfnunar ásamt batnandi skuldahlutfalli er meðal þess sem fram kemur í ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára sem dreift var á Alþingi í dag.

Fjármálaráðuneytið segir, að þetta sé í fyrsta sinn sem slík áætlun sé lögð fram sem þingsályktunartillaga til umfjöllunar á vorþingi samkvæmt þingsköpum Alþingis. Í henni segir að brýnasta viðfangsefnið í stjórn ríkisfjármálanna sé að vinda ofan af skuldum sem ríkið axlaði í kjölfar falls fjármálastofnana.

Í áætlunni segir m.a.: „Í stórum dráttum má segja að ríkisfjármálaáætlunin beri með sér að útlit er fyrir hægfara en stöðugan bata í afkomu ríkissjóðs á komandi árum þar sem fari saman lækkandi hlutfall frumtekna og frumgjalda af VLF.“ 

10 milljarða afgangur 2016 - 40 milljarða afgangur árið 2019

Í áætluninni kemur fram að þrátt fyrir að jákvæð teikn séu á lofti á öllum helstu sviðum ríkisfjármálanna séu ýmsir óvissuþættir fyrir hendi. Megi þar helst nefna útkomu kjarasamninga og afnám fjármagnshafta, fyrir utan hefðbundna þætti eins og aflabrest eða dræma eftirspurn í viðskiptalöndum. Þó þurfi að taka fram að afnám hafta gæti einnig haft jákvæð áhrif á skuldastöðu og vaxtakostnað en eðli málsins samkvæmt eru slíkir óvissuþættir ekki teknir inn í grunnviðmið ríkisfjármálaáætlunarinnar, að því er fram kemur í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Stefnumið ríkisfjármálaáætlunarinnar fyrir tímabilið 2016-2019 er að afkoma ríkissjóðs skili afgangi sem verði í lok tímabilsins nær 1,5% af vergri landsframleiðslu. Þannig verði afgangurinn a.m.k. 10 milljarðar kr. árið 2016 og vaxi síðan jafnt og þétt ár frá ári og verði orðinn nálægt 40 milljarðar árið 2019. Þetta felur í sér um 4 milljarða kr. afkomubata fyrsta árið en svo um 8-10 milljarðar árlega fyrir utan árið 2017 þar sem gera má ráð fyrir um 20 milljarða kr. bata vegna áhrifa af flýtingu niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána.

Brýnt að selja eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og öðrum félögum

Í áætluninni kemur fram að uppsöfnuð vaxtagjöld ríkissjóðs frá bankahruni á föstu verðlagi ársins 2015 nemi um 580 milljörðum króna. Því sé brýnt að gera ráðstafanir á efnahagsreikningi með því að selja eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og öðrum félögum og með því að endurfjármagna ekki hluta af skuldsettum gjaldeyrisforða en endurfjármagna önnur lán með hagstæðari kjörum. Þetta verði að gera annars vegar til þess að styrkja stöðu ríkissjóðs gegn hagsveiflum og ófyrirséðum áföllum og hins vegar til þess að draga úr vaxtabyrðinni og auka þannig svigrúm m.a. til uppbyggingar og til að mæta vaxandi öldrunarkostnaði og lífeyrisskuldbindingum, að því er segir í tilkynningunni.

Ríkisfjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að hlutfall heildarskulda ríkissjóðs af landsframleiðslu fari lækkandi. Þannig verði það í árslok 2015 um 68% en fari niður fyrir 50% í lok árs 2019. Lækkun á skuldahlutfallinu stafar að stærstum hluta af vexti landsframleiðslu en nafnvirði skuldanna lækkar um innan við 10% á árunum 2015-2019. Er eitt af viðmiðum áætlunarinnar að öllum óreglulegum tekjum sem kunna að falla til á tímabilinu verði ráðstafað til lækkunar á skuldum og þar með til lækkunar á vaxtakostnaði ríkissjóðs. Er með óreglulegum tekjum átt við hugsanlegar arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum eða söluhagnað af eignasölu umfram það sem gert er ráð fyrir í grunnspá tekjuáætlunar.

Lengsta hagvaxtarskeið í sögu Íslands - gangi spá Hagstofunnar eftir

Viðspyrnu hefur verið náð með afkomubata út tímabilið 2016-2019. Stöðugleiki ríkir í efnahagsmálum, atvinnuástand heldur áfram að batna og í nýrri vinnuspá Hagstofu Íslands, sem liggur áætluninni til grundvallar, er reiknað með allt að 3% áframhaldandi árlegum hagvexti. Gangi sú spá eftir verður yfirstandandi hagvaxtarskeið eitt hið lengsta í efnahagssögu landsins. Jafnframt er gert ráð fyrir að verðbólga haldist við 2,5% viðmiðunarmörk Seðlabanka Íslands.

Í skýrslunni segir m.a.:

„Ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019 byggist á vinnuspá Hagstofu Íslands um efnahagshorfur sem unnin var í byrjun mars 2015. Gangi hagspár eftir um samfelldan hagvöxt út spátímabilið, sem fari þó lækkandi úr um 4% á þessu ári niður í um 2,5% árið 2019, verður yfirstandandi áratugur eitt lengsta hagvaxtartímabil í nútímahagsögu landsins. Þessar hagstæðu forsendur setja mark sitt á áætlunina, sérstaklega tekjuhliðina, og verður því að hafa fyrirvara um óvissu um framganginn við mat á markmiðum ríkisfjármálaáætlunarinnar, einkum þegar komið verður fram á síðustu árin. Verði vöxtur þjóðarútgjalda minni en spáin segir til um er hætt við að raunvöxtur tekna verði einnig minni en ella og að erfiðara reynist að fylgja eftir áformum um batnandi afkomu ríkissjóðs. Gangi þjóðhagsspáin hins vegar eftir skapast kjöraðstæður til að grynnka á skuldum og lækka vaxtakostnað, sem er eitt 15 helsta viðfangsefnið í rekstri ríkisins. Lækkun skulda og vaxtagjalda myndar meira svigrúm fyrir ríkissjóð þegar kemur að næstu efnahagslægð eða niðursveiflu.“

Þá segir í tilkynningu, að gert sé ráð fyrir vaxandi fjárfestingu sem dregin sé áfram af atvinnuvegafjárfestingu, þ.m.t. stóriðjufjárfestingu til skemmri tíma, og íbúðafjárfestingu. Nær fjárfesting atvinnuvega langtímameðaltali árið 2016, 21% af vergri landsframleiðslu. Núverandi fjárfestingarstig hins opinbera verði óbreytt sem gefi með vaxandi landsframleiðslu svigrúm til nýrra fjárfestingarverkefna.

Skattbyrði fer áfram minnkandi, t.d. með lækkun tolla og frekari lækkun tryggingagjalds og er stefnt að frekari skattkerfisbreytingum til einföldunar á skattkerfinu og til að stuðla að aukinni skilvirkni og umsvifum.

Væri höftum lyft í einni svipan er hætt við að …
Væri höftum lyft í einni svipan er hætt við að útflæði vegna slita fjármálafyrirtækja gæti numið hundruðum milljarða króna. Hreinn gjaldeyrisforði Seðlabankans upp á um 60 milljarða króna mætti sín lítils við slíkar aðstæður, að því er segir í áætluninni. mbl.is/Heiddi
Vaxandi spenna er á vinnumarkaði sem byggist á því að …
Vaxandi spenna er á vinnumarkaði sem byggist á því að einstakir hópar hafa hækkað verulega í launum. mbl.is/Kristinn
Unnið eftir þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálaáætluninni að draga áfram …
Unnið eftir þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálaáætluninni að draga áfram úr flækjustigi skattkerfisins samhliða því að skattar lækki á heimili og atvinnulíf. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert