Erfitt að taka hugmyndina alvarlega

Dagur B.Eggertsson
Dagur B.Eggertsson Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

„Mér finnst satt best að segja svolítið erfitt að taka þessu alvarlega,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is og vísar þar í ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra frá því í gær.

Þar velti ráðherrann því upp hvort ekki væri ástæða til þess að kanna hvort skynsamlegt væri að reisa nýjan Landspítala á lóð Ríkisútvarpsins í Efstaleiti. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir margt við þessa hugmynd að athuga og nefndi til að mynda fyrr í dag að allar hugmyndir sem tefja byggingu nýs spítala eru slæmar.

Dagur B. segir hugmynd forsætisráðherra hins vegar stillt upp sem eins konar viðskiptahugmynd. Að sama skapi segir hann hugmyndina ganga út á það að selja lóðir og byggingarrétt við Hringbraut því fasteignamarkaður sé farinn að taka við sér.

„En ríkið á bara ekki þessar lóðir heldur er það borgin. Reykjavíkurborg hefur, á grundvelli samnings frá 1975, lagt lóðirnar fram með vísan til laga um heilbrigðisþjónustu. Það er því alveg ljóst að borgin myndi leysa til sín lóðirnar ef þarna ætti ekki að rísa spítali,“ segir Dagur B. „Það er ekki nema rétt innan við ár frá því að allt Alþingi, með forsætisráðherrann í broddi fylkingar, sameinaðist um ályktun þess efnis að nýr spítali ætti að rísa við Hringbraut og að það væri bráðaverkefni.“

Þá bendir borgarstjóri einnig á að öll sú ítarlega rýni sem átt hefur sér stað að undanförnu endi alltaf með svipuðum hætti, þ.e. að skynsamlegast sé að byggja nýjan spítala við Hringbraut. „Vegna þess að það er bæði langódýrast og hagkvæmast. Það er best út frá samgöngum litið auk þess sem hægt er að nýta þær byggingar og fjárfestingar sem fyrir eru.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert