Vilja afnema verðtryggingu á nýjum lánum

Flokkurinn vill að verðtrygging á nýjum neytendalánum verði afnumin.
Flokkurinn vill að verðtrygging á nýjum neytendalánum verði afnumin. mbl.is/Sigurður Bogi

Framsóknarflokkurinn vill að verðtrygging á nýjum neytendalánum verði afnumin. Þetta kemur fram í ályktun um efnahagsmál, fjármál ríkisins og skattamál sem samþykkt var á 33. flokksþingi framsóknarmanna í dag.

Með neytendalánum sé þá átt við lán sem neytendur taka í verslunum, þjónustufyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum, svo sem húsnæðislán, lán til bifreiðakaupa og greiðsludreifingarlán, svo eitthvað sé nefnt.

Telur flokkurinn jafnframt mikilvægt að ábyrgðin á milli lánveitanda og lántaka verði skipt jafnar.

Þó er ekki lagt til að vísitölutenging annarra lána, svo sem til fjárfesta, verði afnumin enda séu slíkar tengingar vel þekktar víða um heim, eins og segir í ályktuninni.

Þar segir enn fremur að Framsóknarflokkurinn fagni því að stöðugleika hafi verið komið á í efnahagsmálum með viðsnúningi í fjármálum ríkissjóðs, lægri verðbólgu en sést hafi lengi og verulegri kaupmáttaraukningu fyrir fólkið í landinu. Á kjörtímabilinu hafi orðið til fjölmörg störf auk þess sem stjórnvöld hafi með markvissum hætti aðstoðað fólk við að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Þannig hafi dregið verulega úr atvinnuleysi. Með einföldun regluverks og skattkerfis hafi rekstrarskilyrði fyrirtækja batnað.

Í ályktuninni segir að losun fjármagnshafta sé eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda. Frelsi fjármagnsflutninga sé mikilvægt til að ná fram heilbrigði í efnahagsmálum og innleiða markaðsskráningu íslensku krónunnar. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að tryggja áunninn stöðugleika samhliða losun hafta. Mikilvægt sé að koma í veg fyrir að hugsanleg skammtímaveiking íslensku krónunnar í kjölfar haftalosunar leiði til sjálfvirkrar hækkunar lána í landinu og þar með skuldaaukningar heimila og fyrirtækja.

Skuldir fari niður fyrir 50% af VLF

„Forgangsverkefni er að lækka skuldir ríkissjóðs en þær verða m.a. lækkaðar með aukinni verðmætasköpun þjóðarbúsins og með aðhaldi í rekstri hins opinbera. Árlega nema vaxtagjöld ríkissjóðs ríflega 80 milljörðum. Það fé þurfum við að nýta til brýnni verka. Markmið ríkisstjórnarinnar er að skuldir ríkissjóðs fari niður fyrir 50% af vergri landsframleiðslu árið 2019. Flokksþingið styður við það metnaðarfulla markmið.

Framsóknarflokkurinn fagnar umbótum á skattkerfinu á kjörtímabilinu. Flokksþingið vill að haldið verði áfram á þeirri braut að einfalda skattkerfið og persónuafsláttur hækkaður til fyrra horfs að raungildi. Þó er rétt að árétta að stíga beri varlega til jarðar með frekari breytingar á virðisaukaskattskerfinu,“ segir jafnframt í ályktuninni.

Þá fagnar flokkurinn skýrslu Frosta Sigurjónssonar um þjóðpeningakerfi og hvetur til þess að ráðist verði í óháða fýsileikakönnun um möguleika þess að taka upp þjóðpeningakerfi. Þá verði fleiri möguleikar skoðaðir til þess að hemja aukningu peningamagns í umferð.

Forysta Framsóknar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Eygló Harðardóttir og Sigurður Ingi …
Forysta Framsóknar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Eygló Harðardóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert