Hjálmarnir gefnir utan skólatíma

Eimskip og Kiwanisklúbbar mega ekki gefa grunnskólabörnum reiðhjólahjálma á skólatíma.
Eimskip og Kiwanisklúbbar mega ekki gefa grunnskólabörnum reiðhjólahjálma á skólatíma. mbl.is/Eyþór

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, gagnrýnir kjörna fulltrúa Reykjavíkurborgar fyrir að taka ekki skýra afstöðu varðandi gjafir einkaaðila til grunnskólabarna. Eimskip og Kiwanishreyfingin hyggjast gefa grunnskólabörnum um land allt reiðhjólahjálma í næstu viku.

Rétt rúmlega níu af hverjum tíu sem svöruðu könnun Capacent segjast vera fylgjandi því að Kiwanis-hreyfingin og Eimskip fái að gefa grunnskólabörnum reiðhjólahjálma.

Spurt var: „Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að leyfa Kiwanis hreyfingunni í samstarfi við Eimskip að fara í grunnskóla og gefa börnum í 1. bekk reiðhjólahjálma og fræðsluefni um mikilvægi og notkun þeirra?“

„Hjálmurinn einn og sér gerir lítið gagn nema að krakkarnir fái leiðbeiningar um hvernig eigi að nota hann. Kiwanis afhendir hjálmana með hjúkrunarfræðingum, læknum, slökkviliðsmönnum og ýmsum heilbrigðisstarfsmönnum víðs vegar af landinu. Þeir afhenda hjálmana og kenna börnunum að nota hjálminn, stilla hann og kenna þeim umferðarreglurnar rétt áður en þau fara út í sumarið,“ segir Ólafur.

Þessi hátturinn er hafður á í öllum sveitarfélögum á landinu nema í Reykjavíkurborg þar sem í reglum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir að ekki sé leyfilegt að dreifa gjöfum sem ætlaðar eru börnum til einkaeignar innan starfsstaða skóla- og frístundasviðs.

Hjálmanotkun mest á Íslandi

„Kjörnir fulltrúar ættu að koma fram og segjast vera á móti þessu eða ekki. Þeir eru búnir að hlaupa í kringum þetta mál eins og kettir í kringum heitan graut í mjög langan tíma,“ segir Ólafur og bætir við að þarna sé verið að gera gott verkefni að deilum og dægurþrasi.

Hann segir hjálmanotkun á Íslandi vera mesta í heiminum og segir hann það vera vegna hjálmagjafa Eimskips og Kiwanis síðastliðin 13 ár.

„Allir krakkar á bilinu 6 til17 ára gamlir hafa fengið hjálm að gjöf. Það eru 50 þúsund börn sem er enginn smá fjöldi. Kiwanis á Íslandi hafa fengið viðurkenningu alheimssamtaka Kiwanis fyrir besta samfélagslega verkefnið í fyrra á alþjóðavísu. Menn öfunda okkur af þessu,“ segir Ólafur.

Hann segir að hjálmagjafirnar verði leystar. „Kiwanisklúbbarnir hafa verið í sambandi við skólana og foreldrafélögin og nú er unnið að því hvernig þetta verður leyst,“ segir Ólafur. Hann segir að það verði væntanlega gert með þeim hætti að hjálmarnir verða gefnir utan skólatíma og hvetur hann því foreldra grunnskólabarna í Reykjavík að fylgjast vel með og nálgast hjálmana í næstu viku þegar þeim verður dreif um land allt.

Hjálmarnir eru merktir Eimskipafélaginu

Hjálmarnir sem grunnskólabörn í fyrsta bekk fá afhenta í næstu viku eru merktir Eimskipafélaginu. Ólafur segir merkinguna ekki vera hugsaða sem hjólandi auglýsingu heldur hafi merkingin verið unnin í samvinnu við Neytendastofu. Þar á bæ gera menn strangar kröfur um merkingu þar sem Eimskip er tæknilega séð framleiðandi hjálmanna.

„Reglur sem Neytendastofa setur eru að framleiðandi á hjálminum verði alltaf að sjást,“ segir Ólafur og bætir við að samstarfið hafi tekist mjög vel við Neytendastofu.

„Það er ekki hægt að merkja þá að innanverðu því þar eru hlífar sem halda ekki merkingum. Það verður að sjást hver framleiðandinn er því ef það gerist eitthvað fyrir hjálminn verður að vera hægt að rekja gallann til framleiðandans,“ segir Ólafur en bætir við að merkingin sé eins lítil og mögulega mátti vera aftan á hjálminum.

Hann segir að þegar hann leitaði eftir svörum frá Reykjavíkurborg hafi hann fengið þau svör að Adidas og Nike hefðu mátt gefa hjálmana sem framleiðendur en ekki Eimskip. „Niðurstaðan er því að Eimskipafélagið má ekki framleiða hjálma,“ segir Ólafur.

„Þetta er ekki þannig að við búumst við 4500 krökkum hangandi á hurðarhúninum hjá okkur á morgun því þeir vilji kaupa gámaflutninga,“ segir Ólafur og bætir loks við að hann sé búinn að ræða við marga skólastjórnendur og kennara sem sjá ekkert að þessum hjálmagjöfum.

Rúmlega fimm prósent landsmanna á móti reiðhjólahjálmagjöfunum

Í könnun Capacent sem unnin var fyrir Eimskip segjast 90,3 prósent þeirra sem tóku afstöðu vera alfarið, mjög eða frekar hlynntir því að Kiwanis í samstarfi við Eimskip fái að gefa grunnskólabörnum í 1. bekk reiðhjólahjálma og fræðslu um notkun þeirra.

4,2 prósent aðspurðra svöruðu „hvorki né“ og því ekki nema 5,5 prósent þeirra sem tóku afstöðu sem eru mótfallnir því að grunnskólabörn fái reiðhjólahjálm að gjöf frá Kiwanis-hreyfingunni og Eimskipafélaginu.

Ef skoðaðar eru niðurstöður könnunarinnar hjá svarendum í Reykjavík fást svipaðar niðurstöður. 88 prósent svarenda segjast vera alfarið, mjög eða frekar hlynntir því að börnin fái reiðhjólahjálmana og fræðslu, fjögur prósent segja „hvorki né“ og um átta prósent svarenda eru mótfallnir hjálmagjöfum.

Úrtak könnunarinnar var 1750, fjöldi svarenda var 1050 og þátttökuhlutfall því 60,0 prósent.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, lengst til vinstri á myndinni.
Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, lengst til vinstri á myndinni. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert