Bæjarbúar Tálknafjarðar slegnir

Tálknafjarðarkirkja.
Tálknafjarðarkirkja. mbl.is/Sigurður Bogi

„Í svona litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla er fólk afar slegið,“ segir Sr. Leifur Ragnar Jónsson, sóknarprestur á Tálknafirði, þaðan sem bræðurnir tveir sem festust í fossi í Lækn­um í Hafnar­f­irði á þriðju­dag eru.

Kyrrðar- og bænastund verður haldin í Tálknafjarðarkirkju klukkan hálf 9 í kvöld, þar sem bæjarbúar munu koma saman og biðja fyrir bræðrunum. Dreng­irn­ir eru 9 og 12 ára, en þeim yngri er enn haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæslu Landspítalans. Verður sérstaklega beðið fyrir honum.

Leifur segir mikilvægt að bæjarbúar geti komið saman og sýnt stuðning sinn og samhug. „Þetta er gífurlegt áfall en með samheldni og styrk kemst fólk í gegnum þetta,“ segir hann. „Þetta er náttúrulega afar alvarlegur atburður en fólk vonar það besta.“

Hann fór í grunnskóla Tálknafjarðar í dag þar sem hann ræddi við skólayfirvöld og starfsfólk skólans auk þess að ræða við krakkana í skólanum sem þekkja drengina mjög vel.

Indriði Indriðason, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps, segir mikla samstöðu ríkja í bænum og bæjarbúar liggi á bæn og voni það besta. „Hugur okkar er alfarið hjá þessu fólki, það er bara þannig,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert