Segja kynjahalla aukast innan kirkjunnar

Prestar ganga inn í Hallgrímskirkju.
Prestar ganga inn í Hallgrímskirkju. mbl.is/Eggert

Félag prestvígðra kvenna skorar á valnefndir, prófasta og biskup Íslands að tryggja að þjóðkirkjufólk hafi aðgang að jafnri þjónustu beggja kynja innan sókna, samstarfssvæða og prófastsdæma. Konur eru þriðjungur þjónandi presta innan þjóðkirkjunnar. 

Þetta kemur fram í ályktun sem aðlfundur Félags prestvígðra kvenna, sem haldinn var í Grafarvogskirkju þann 13. apríl 2015, samþykkti og sendi frá sér. 

„Félag prestsvígðra kvenna fagnar því hversu margar frambærilegar konur hafa lokið guðfræðinámi og sækjast eftir embættum og trúnaðarstörfum í þjóðkirkjunni.

Hins vegar gagnrýnir fundurinn hversu lítinn framgang  konur hafa fengið í vali og veitingum embætta á umliðnu ári en á árinu fengu 5 karlar og 4 konur embætti, en á móti gengu 7 konur og 2 karlar úr embætti, þannig að kynjahallinn hefur enn aukist. Að auki bendir fundurinn á að af þeim sem hlutu vígslu árið 2014 voru 5 karlar og 2 konur,“ segir í ályktuninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert