Heiðra dýraverndara

Í rökstuðningi Dýraverndarsambands Íslands segir að Sigríður Björnsdóttir hafi ótvírætt …
Í rökstuðningi Dýraverndarsambands Íslands segir að Sigríður Björnsdóttir hafi ótvírætt bætt velferð og framtíð hesta. Ásdís Haraldsdóttir

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir, er dýraverndari ársins að mati Dýraverndarsambands Íslands (DÍS) vegna ötullar vinnu í þágu velferðar hesta. Viðurkenningin verður veitt við athöfn á morgun en auk hennar hljóta Kisukot á Akureyri og tilraunaverkefni Ormsstaðabúsins og rannsóknarstöðvar Matís um að sleppa geldingu grísa styrki frá sambandinu.

Stjórn DÍS hefur ákveðið að velja árlega úr þeim hópi einstaklinga, félagasamtaka eða lögaðila sem vinna að bættri velferð dýra í anda félagsins og styrkja þá viðleitni. Einnig velur stjórn DÍS dýravin sem hefur hefur unnið að aukinni dýravelferð með ótvíræðum hætti og í anda félagsins. Dýraverndarsambandið vill með þessu móti beita sér fyrir að styrkja og efla þá sem vinna að dýravelferð og einnig vekja athygli á og hvatningu til slíkrar vinnu.

Í frétt á vef DÍS segir að Sigríður hafi beitt sér fyrir almennri velferð hesta, m.a. með því að vinna gegn óhóflegri tannröspun og tannslípun hesta sem sýnt hafi verið fram á að sé óþörf og geti valdið þeim viðvarandi tannverk. Einnig hafi hún unnið að rannsóknum sem sýna fram á arfgengi sársaukafullrar liðakölkunar í afturfótum hesta (spatt), sem í kjölfarið hefur verið reynt að koma í veg fyrir við ræktun íslenska hestsins. Jafnframt hafi Sigríður sýnt fram á að notkun ákveðinna beislisméla valdi beinhimnubólgu með þrýstingi á kjálkabein hrossa og hafa þau mél nú verið bönnuð við keppni og sýningar á íslenskum hestum vegna dýravelferðarsjónarmiða.

„Dýraverndarsambandið telur að vinna Sigríðar í þágu hesta hafi ótvírætt bætt velferð þeirra og framtíð og vill veita henni viðurkenningu fyrir hennar starf,“ segir í fréttinni.

Kisukot, sem hefur starfað í þágu heimilislausra katta á Akureyri frá 2012, og tilraunaverkefni Ormsstaðabúsins og rannsóknastöðvar Matís fá styrki upp á 70.000 krónur frá sambandinu hvort. 

Viðurkenningin og styrkirnir verða veittir á atburði í húsnæði félagsins að Grensásvegi 12A (bakhús) kl. 14 á morgun, laugardaginn 18. apríl. 

Frétt á vef Dýraverndarsambands Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert