Verið að mylja heilbrigðiskerfið niður

Mörgum aðgerðum hefur verið frestað vegna verkfallsins.
Mörgum aðgerðum hefur verið frestað vegna verkfallsins. mbl.is/Eggert

Í dag eru ellefu dagar frá því að verkfallsaðgerðir Bandalags háskólamanna (BHM) hófust. Fjögur félög af þeim sem fimm sem hófu aðgerðir 7. apríl starfa innan heilbrigðiskerfisins; geislafræðingar, lífeindafræðingar, ljósmæður og náttúrufræðingar.

Landlæknir segir stöðu mála óásættanlega og verið sé að mylja heilbrigðiskerfið niður hægt og sígandi með þessu áframhaldi. Hann segist ekki vita til þess að komið hafi til umræðu að setja lög á verkfallsaðgerðirnar.

Fjölda aðgerða hefur verið frestað síðustu daga, krabbameinssjúklingar geta ekki allir haldið áfram eða hafið lyfjameðferð þar sem þeir komast ekki myndatökur og færa þarf tíma þungaðra kvenna í sónar, keisaraskurð eða gagnsetningu til svo eitthvað sé nefnt.

Skemmst er að minnast læknaverkfallsins í lok síðasta árs en þá varð mikil röskun á þjónustu spítala og annarra heilbrigðisstofnana. Það er því ekki úr vegi að spyrja landlækni út í stöðu mála og hvort staða sem þessi sé ásættanleg, að sjúklingar þurfi að líða fyrir kjarabaráttu.

Þriðji maður alltaf notaður sem verkfæri

Birgir Jakobsson landlæknir segir stöðuna svo sannarlega ekki ásættanlega. „Ég held að það verði eitthvað að fara yfir þetta ferli ef þetta á að halda svona áfram. Ég vona auðvitað að þetta gangi yfir og verði ekki árlegur viðburður en ég verð að segja að það er verið að mylja niður heilbrigðiskerfið hægt og sígandi ef þetta heldur svona áfram,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Frétt mbl.is: Hlé á lyfjameðferð vegna verkfalls

Í aðsendri grein Hinriks A.  Hansen, sem glímir við krabbameinsæxli í litla heila, í Fréttablaðinu í vikunni sagði hann að færst hefði í aukana að sjúklingar hér á landi séu notaðir í kjarabaráttu mismunandi starfsstétta. „Er þetta þróun sem okkur finnst eðlileg og megum við búast við fleiri aðgerðum á næstu misserum þar sem stéttarfélög nota neyð sjúklinga á spítölum til að sækja launahækkanir fyrir sína félagsmenn,“ spurði Hinrik.

„Það er nú þannig í kjarabaráttu að þriðji maður er alltaf notaður sem verkfæri til að þrýsta á aðila og  það er sérstaklega erfitt þegar um er að ræða veikt fólk, að nota það á þennan hátt,“ segir Birgir og bendir á að ekki sé langt síðan þetta var ekki leyfilegt.

„Nú er þetta svona og þá er raunverulega ekki annað hægt en að veðja til þeirra sem standa að þessu að taka eins mikla ábyrgð og skilning á stöðu sjúklinga og mögulegt er.“

Allir leggjast á eitt þegar eitthvað bjátar á

„Það sem við getum gert er að setja ákveðinn þrýsting á aðila sem hafa yfir þessu að ráða, að þetta sé ófremdarástand sem ekki er hægt að hafa í siðmenntuðu þjóðfélagi. Það er það sem við getum bent á,“ segir Birgir en hann og annað starfsfólk embættisins fylgist grannt með verkfallsaðgerðunum og áhrifum sem það hefur.

Svo virðist sem enn sé þeim verkum sem brýn eru í heilbrigðisþjónustunni sinnt. „En því lengur sem þetta stendur, þeim mun meiri hætta er á ferðum, sérstaklega varðandi sjúklinga sem þurfa á bráðaþjónustu, eða hálfbráðaþjónustu eins og krabbameinssjúklingar og aðrir slíkir.“

Þrátt fyrir viðamiklar verkfallsaðgerðir hjá þessum félögum og ýmsar raskanir sem komið hafa illa við sjúklinga virðist starfsemin heilt á litið ganga ótrúlega vel, þ.e. ef marka má viðbrögð margra þeirra sem mbl.is hefur sett sig í samband við síðustu daga.

„Ég held að það sé mjög sterkur eiginleiki hjá fólki sem vinnur innan heilbrigðiskerfisins að þegar eitthvað bjátar á er eins og allir leggist á eitt til að gera það besta úr stöðunni. Ég held að það sé það sem gerist ef það gerast stórslys, eða ef eitthvað gerist í þjóðfélaginu, þá er hægt að reiða sig á starfsfólk í heilbrigðisþjónustunni, það er það sem gerir það að verkum að áhrifin verða minni en maður gæti kannski vænst. Það er þá meira komið undir starfsfólkinu sjálfu, ekki endilega stéttarfélögunum,“ segir Birgir.

Lög á verkföllin ekki enn til umræðu

En hversu lengi er hægt að halda verkfallsaðgerðunum áfram?

„Það fer eftir því hvort verkfallsaðgerðirnar verði auknar, þá verða áhrifin alvarlegri og einnig því lengur sem þau standa. Þetta er þannig verkfall að það er mjög erfitt að skipuleggja flókna þjónustu,“ segir Birgir.

Hann segist ekki vita til þess að komið hafi til umræðu að setja lög á verkfall lækna. „Það er ekkert sem við höfum mælt með ennþá. Við fylgjumst grannt með, ég vona að það gerist ekkert alvarlegt.“

Ljósmæður eru meðal þeirra sem eru í verkfalli.
Ljósmæður eru meðal þeirra sem eru í verkfalli. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Birgir Jakobsson landlæknir.
Birgir Jakobsson landlæknir. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert