„Það stefnir ekki í neinn kjötskort“

Kjúklingabú. Myndin er úr safni.
Kjúklingabú. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Verkföll stéttarfélaga innan BHM sem hófust á miðnætti hafa mikil áhrif á samfélagið, bæði menn og dýr. Verkfall dýralækna mun stöðva slátrun spendýra og fiðurfénaðar, og útflutning dýraafurða til ríkja utan EES/ESB, svo fátt eitt sé nefnt.

Þá stöðvast einnig að mestu innflutningur á dýraafurðum, eins og kjöti og ostum, og því viðbúið að úrval af ferskri kjötvöru í búðum minnki.

Sigurður Gunnar Markússon, framkvæmdastjóri innkaupasviðs Kaupáss, sem rekur meðal annars Krónuna og Nóatún, segir að nóg sé til af kjöti í búðum Kaupáss og grillarar landsins geta andað rólega – í bili að minnsta kosti.

„Það er svolítið verið að blása þetta meira upp en efni og ástæða er til. Það er ekki eins og það verði kjötlaust. Lömbum er slátrað að hausti, það eru þokkalegar birgðir til af nautakjöti í landinu, það er til mikið af frosnum kjúklingi og svínakjöti þannig að birgðir af fersku kjöti munu duga allavega viku í viðbót. Það eru síðan til margra vikna birgðir af frosnu kjöti þannig að það stefnir ekki í neinn kjötskort.

En auðvitað er það þannig að ef allt fer á versta veg og horft er langt fram í tímann þar sem ekkert gerist í samningaviðræðum þá verða áhrifin eitthvað meiri – en engin stórkostleg vandræði.“

Sigurður segir að neytendur eigi að geta gengið að kjötbirgðum vísum í verslunum Krónunnar og engin ástæða til að fara að hamstra kjöt.

„Það er engin launung að ef það verður verkfall í meira en viku þá gæti skort ferskan kjúkling en ef fólk ætlar að hamstra þá þarf að frysta hann.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert