Með flottari bönkum í heiminum

„Ég er ennþá á því að Kaupþing hafi verið með flottari bönkum í heiminum,“ sagði Pétur Kristinn Guðmarsson fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þegar tekin var skýrsla af honum vegna stóra makaðsmisnotkunarmálsins. Þar er hann ákærður fyrir markaðsmisnotkun með því að hafa haft milligöngu um viðskipti sem hafi verið hugsuð til þess að halda verði á hlutbréfum í Kaupþing banka uppi í aðdraganda falls bankans. Pétur starfaði þá sem verðbréfasali eigin viðskipta Kaupþings.

Með Pétri eru meðal annars Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, ákærðir í málinu. Ennfremur Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemburg.

Ítar­leg frétta­skýr­ing mbl.is um málið: Mál án for­dæma

Pétur sagðist sannfærður um að ef Kaupþing hefði ekki fallið með þeim hætti sem raunin hafi orðið væri hann enn að starfa fyrir bankann með sama hætti.  Honum var tíðrætt í skýrslutökunni um það traust sem hann hafi borið til yfirmanna sinna í Kaupþing banka. Þaðan hafi hann tekið við fyrirmælum og ekki talið sig hafa ástæðu til annars en að ætla að þau væru að fullu í samræmi við lög og reglur. Hann hafi einfaldlega sinnt sínum störfum í góðri trú.

Vísaði Pétur meðal annars í viðtækt eftirlit með þeim viðskiptum sem hann hafði milligöngu um bæði innan Kaupþings og utan bankans. Þá hafi yfirmenn Kaupþings verið álitnir „súperstjörnur“ í bransanum á þessum tíma. Hann hafi því borið fullt traust til þeirra. Nefndi hann ennfremur að alþjóðleg matsfyrirtæki hafi talið bankann einn þann traustasta í heimi á þessum tíma. Sama hafi átt við um umsagnir stórra alþjóðlegra banka eins og UBS og Merrill Lynch.

Pétur nefndi að sama skapi máli sínu til stuðnings ýmis arðbær viðskipti sem Kaupþing hefði gert á þessum tíma. Þannig hafi bankinn til dæmis tekið stöðu gegn vaxtahækkun í Bretlandi og grætt 16 milljarða á einum degi. Kaupþing hafi ennfremur verið í samstarfi við danska seðlabankann um að bjarga Roskilde Bank. Traust í garð bankans og á stöðu hans hafi þannig verið mikið. Hann hafi því ekki haft ástæðu til að telja annað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert