Ljósmæður samþykkja flestar undanþágur

Röntgenmynd skoðuð á Landspítalanum.
Röntgenmynd skoðuð á Landspítalanum. Morgunblaðið/ÞÖK

Fjöldi undanþágubeiðna hefur borist átta félögum innan Bandalags háskólamanna eftir að þau hófu verkfallsaðgerðir í mánuðinum. Flestar hafa borist vegna verkfalls ljósmæðra, eða hátt í fimmtíu og hafa þær flestar verið samþykktar.

Meðal annars hafa fengist undanþágur svo hægt verði að greiða út barnabætur, tryggja mönnun á Landspítalanum vegna fæðinga og rannsaka sýni. Aftur á móti fékkst ekki leyfi til að slátra alifuglum á fjórum búum og þarf því að drepa mörg þúsund dýr, takist ekki að semja í tæka tíð.

mbl.is tók saman undanþágubeiðnir sem borist hafa vegna verkfallsins.

Fengu að fara í myndatöku um helgina

Fjórar undanþágubeiðnir hafa borist Félagi geislafræðinga vegna ótímabundins verkfalls félagsmanna sem hófst fyrir tveimur vikum. Tveimur þeirra var hafnað en tvær voru samþykktar. Tugir krabbameinssjúklinga féllu undir aðra beiðnina sem var samþykkt og fengu þeir að fara í myndatöku um helgina.

Það að auki hafa verið framkvæmdar myndgreiningar í þremur tilfellum án þess að undanþága hafi fengist. Í þessum tilvikum vannst ekki tími til að sækja um undanþágu eða bíða eftir niðurstöðu nefndarinnar og því ákveðið að framkvæma myndgreingingu þegar í stað.

Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga, segir í samtali við mbl.is að geislafræðingar hafi tekið á ákveðnum vanda um helgina sem safnast hafði upp. Tugir krabbameinssjúklinga fóru í myndatöku og segir Katrín að málin hafi æxlast þannig að hópurinn hafi orðið útundan. Misjafnt var hversu lengi sjúklingarnir höfðu þurft að bíða eftir myndatöku.

Þörfin fyrir ljósmæður vanmetin

Um fjörutíu til fimmtíu undanþágubeiðnir hafa borist vegna verkfalls ljósmæðra og hafa flestar þeirra, eða um fjörutíu, verið samþykktar. Enn á eftir að taka afstöðu til fimm beiðna. Athygli vekur að beiðnirnar eru heldur fleiri en hjá hinum félögunum og að flestar þeirra hafi verið samþykktar.

Formaður Félags ljósmæðra, Áslaug Íris Valsdóttir, segir í samtali við mbl.is að þörfin fyrir ljósmæður hafi verið vanmetin þegar listar vegna verkfallsins voru settir saman. Verkfall ljósmæðra á Landspítalanum er ótímabundið og stendur yfir þrjá virka daga, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag.

Greiða barnabæturnar út um mánaðamótin

Tuttugu og þrjár undanþágubeiðnir hafa borist Félagi lífeindafræðinga frá því að verkfall félagsmanna hófst fyrir tveimur vikum. 215 lífeindafræðingar leggja niður störf frá kl. 8 til 12 alla virka daga og er verkfall þeirra ótímabundið.

Engri beiðni hefur verið hafnað en þær koma einna helst utan af landi, eða frá þeim stöðum þar sem ekki eru tekin blóðsýni á göngudeildum þar sem lífeindafræðingar sjá alfarið um þær. Flestar beiðnirnar eru vegna blóðsýna en einnig til að mynda vegna vefja- og fylgjusýna.

Undanþágunefnd Bandalags háskólamanna (BHM) samþykkti síðdegis í gær að veita undanþágu þannig að félagsmenn sem starfa hjá Fjársýslu ríkisins geti afgreitt barna- og bætur um mánaðamótin.

Verkfall þrjátíu og fimm félagsmanna í Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hófst í gær en það er tímabundið til 8. maí. Hefði undanþágan ekki verið veitt hefði afgreiðsla barnabóta tafist á meðan verkfallið stendur yfir.

Þurftu að rannsaka sýni þegar í stað

Þrjár undanþágubeiðnir hafa borist vegna verkfalls Stéttarfélags lögfræðinga  hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða 27 lögfræðinga og er verkfall þeirra ótímabundið. Tveimur beiðnum var hafnað, annars vegar vegna skipunar lögráðamanns og hins vegar vegna leyfis vegna skemmtanahalds. Ein beiðni var samþykkt og var hún vegna aðfarargerðar.

Fimmtán undanþágubeiðnir hafa borist vegna verkfalls Félags íslenskra náttúrufræðinga. Um er að ræða beiðnir vegna 19 starfa og var tveimur beiðnanna hafnað. Meðal annars var samþykkt að kalla inn náttúrufræðing til að rannsaka sýni þegar í stað svo unnt væri að tryggja öryggi sjúklings og hefja viðeigandi meðferð.

Gætu þurft að drepa mörg þúsund dýr

Sex undanþágubeiðnir voru teknar til umfjöllunar hjá undanþágunefnd vegna verkfalls dýralækna í gær en verkfall þrjátíu og níu dýralækna hófst á miðnætti í gær. Fimm beiðnanna var hafnað en fresta þurfti ákvörðun í einu máli þar sem nefndinni höfðu ekki borist viðeigandi upplýsingar. Dýralæknir þarf að vera viðstaddur til að slátrun sé heimil.

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun sneri ein beiðnin að innflutningi á gæludýrum sem eiga að fara í einangrunarstöð áður en þau mega fara í eigenda sinna. Fjórar voru frá svína- og alifuglaframleiðendum og ein frá einstaklingi sem vildi flytja inn hund.

Reykjagarður mun að óbreyttu þurfa að drepa um 16 þúsund kjúklinga í vikunni og urða þá. Þetta sagði Matthías Hannes Guðmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, eftir að ljóst var að beiðni um undanþágu frá verkfalli Dýralæknafélags Íslands var hafnað.

Um fimmtíu undanþágubeiðnir hafa borist vegna verkfalls ljósmæðra.
Um fimmtíu undanþágubeiðnir hafa borist vegna verkfalls ljósmæðra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Undanþágur frá alifuglabændum vegna slátrunar voru ekki samþykktar.
Undanþágur frá alifuglabændum vegna slátrunar voru ekki samþykktar. mbl.is/Árni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert