Enginn strætó á Akureyri í mánuð

Notendur SVA þurfa að finna annan ferðamáta í júlí fari …
Notendur SVA þurfa að finna annan ferðamáta í júlí fari sem horfir. mbl.is/Skapti

Illa hefur gengið að ráða í afleysingastöður vegna sumarfría hjá Strætisvögnum  Akureyrar og lítur út fyrir að akstur vagnanna falli niður frá 15. júlí til 15. ágúst í sumar.

„Það er væntanlega þennsla í ferðamennsku,“ segir Helgi Már Pálsson, bæjartæknifræðingur, um ástæður þess að illa gengur að ráða í stöðurnar. „Væntanlega eru menn að sækja hærri laun hjá ferðaþjónustuaðilum.“

Helgi segist ekki geta svarað því hvort það komi til greina að bjóða hærri laun enda séu þau mál ekki á hans könnu en að nú sé unnið með þá hugmynd að strætisvagnarnir gangi ekki í einn mánuð yfir sumartímann. „Það er verið að reyna að finna lausn en það er ekki hægt að keyra ef við höfum ekki menn.“

Hann segir að aðkoma SVA að Unglingalandsmóti UMFÍ á Akureyri í sumar verði tryggð en að öðru leiti verði ekki unnt að koma til móts við notendur vagnanna á þessu  tímabili.  

Sex afleysingamenn þarf til að halda öllum leiðunum fjórum gangandi en aðeins hefur verið ráðið í tvær og hálfa stöðu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mannekla hrjáir SVA yfir sumartímann því í fyrra var akstur á einni leið felld niður yfir sumartímann af sömu ástæðum.

Helgi segir vandann aukast í takt við ferðamannastrauminn og að í raun sé lítið við því að gera. „Þeir keyra sig ekki sjálfir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert