Bílar festust á Holtavörðuheiðinni

Veðrið á Holtavörðuheiðinni klukkan 15.50. -4 gráður og 18 m/sek
Veðrið á Holtavörðuheiðinni klukkan 15.50. -4 gráður og 18 m/sek Skjáskot vefmyndavél

Nokkrir bílar festust á Holtavörðuheiðinni í dag en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Blönduósi eru þeir að losna. „Það er ekkert að nema nokkrir bílar eru fastir en það er allt að lagast,“ sagði Kristján Þorbjörnsson frá lögreglunni í Blönduósi í samtali við mbl.is.

„Einhverjir bílar sátu fastir og komust ekki af stað aftur án aðstoðar. Ég held að engin óhöpp hafi átt sér stað.“ Eru bílarnir þá of illa búnir og búast menn ef til vill ekki við snjó og hálku á þessum árstíma? „Jafnvel þó bílarnir séu vel búnir lenda menn í því að festast, hálkan er svo rosaleg. Þetta getur jafnvel komið fyrir þá sem eru á nöglum.“

Kristján sagði að það væri ekki tímabært að taka nagladekkin undan bílum enn um sinn. „Nei, veðrið býður ekki upp á það. Við sektum menn ekki þó þeir séu með nagladekk, aldeilis ekki,“ sagði Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert