VR undirbýr verkfall

Á fundinum var rætt um mögulegar tímasetningar atkvæðagreiðslu og aðgerða.
Á fundinum var rætt um mögulegar tímasetningar atkvæðagreiðslu og aðgerða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samningafundur fulltrúa VR og Landssambands ísl. verzlunarmanna annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar hjá ríkissáttasemjara í dag var árangurslaus. Farið var yfir stöðuna á fundi stjórnar og trúnaðarráðs VR í kvöld og næstu skref rædd. Undirbúningur verkfallsaðgerða er hafinn. 

Þetta kemur fram í tilkynningu. 

„Deilu VR / LÍV og SA var vísað til ríkissáttasemjara þann 17. apríl síðastliðinn. Fyrsti fundur hjá sáttasemjara var á þriðjudag í síðustu viku og annar fundurinn var haldinn í dag. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR og varaformaður LÍV, sagði að loknum fundinum í dag að lítið hafi þokast í samkomulagsátt og að ekkert benti til þess að samningar væru í sjónmáli. Fundurinn hafi því reynst árangurslaus, og var sú afstaða félagsins bókuð í fundargerð með vísan í 3 mgr. 15. gr. laga nr. 80 frá 1938,“ segir í tilkynningu. 

„Við sjáum því miður fátt annað í stöðunni en að hefja atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun,“ er haft eftir Ólafíu í tilkynningu.  Í VR eru alls um 30 þúsund félagsmenn og í LÍV eru þeir um fimm þúsund. Flestir starfa samkvæmt samningi félaganna og Samtaka atvinnulífsins.

Hljóðið þungt í fundarmönnum

„Stéttarfélög taka ekki ákvörðun um undirbúning aðgerða af léttúð. Það vill enginn fara í verkfall og við boðum ekki til þess nema enginn annar kostur sé í stöðunni. Og í dag sjáum við engan annan kost,“ er haft eftir Ólafíu.  

Í tilkynningunni kemur fram að hljóðið hafi verið þungt í fundarmönnum í kvöld en þeir voru sammála um næstu skref, að hefja undirbúning aðgerða. Á fundinum var rætt um mögulegar tímasetningar atkvæðagreiðslu og aðgerða en verkfallsnefnd hefur verið að störfum síðustu vikur til að skipuleggja aðkomu VR og annarra aðildarfélaga LÍV að verkfallsaðgerðum á almennum vinnumarkaði, komi til þeirra.

Færðu tvo milljarða í Vinnudeilusjóð

Búast má við að undirbúningur fyrir atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun taki nokkra daga en að hún geti hafist í annarri viku maí. Stefnt er að því að aðgerðir hefjist í lok maí ef til þeirra kemur. 

Stjórn VR samþykkti á fundi sínum í kvöld að færa tvo milljarða króna úr félagssjóði í Vinnudeilusjóð og stendur sjóðurinn nú í þremur milljörðum. Hlutverk Vinnudeilusjóðs er að veita félagsmönnum VR, sem missa tekjur vegna vinnustöðvunar eða verkbanna, fjárhagsaðstoð. 

Frétt mbl.is: SA mætti „óbilgjörnum“ kröfum

Frétt mbl.is: Viðræðum VR og SA slitið

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert