Missir stæðið og selur vagninn

Vagninn sem Jónína hyggst selja.
Vagninn sem Jónína hyggst selja. Af Facebooksíðu Farmers soup

Jónína Gunnarsdóttir, eigandi Farmers soup, mun ekki selja súpu úr bíl sínum í sumar líkt og í fyrra vegna breytinga á samþykkt Reykjavíkurborgar.

Hún hafði fyrirhugað að selja súpuna áfram í sumar en ætlar nú að selja bílinn og hætta starfsemi fyrirtækisins þar sem hún fær ekki stæði til hafa bílinn í í sumar. Væri hún aftur á móti með vagn eru mun fleiri möguleikar í boði. 

Líkt og mbl.is greindi frá síðasta sumar hefur matarvögnum og bílum af öllum stærðum og gerðum farið fjölgandi í borginni síðustu ár og notið mikilla vinsælda. Fólk kemur í öllum veðrum og gæðir sér á kræsingunum sem boðið er upp á.

Frétt mbl.is: Vagnar að erlendri fyrirmynd

Jónína segist hafa kannað málið síðastliðið haust þegar ljóst var að samþykktinni yrði breytt en um sumarið hafði hún fengið stæði til eins árs við Skólavörðuholt og selt súpu. Hún átti meðal annars fund með umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar og ræddi við lögfræðing borgarinnar. Þá skrifaði Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, bréf til umhverfis- og skipulagsráðs fyrir hönd Jónínu og spurðist fyrir um málið.

Jónína segist hafa gert það sem í hennar valdi stóð til að hafa áhrif en beðið og vonað í vetur samþykktin yrði á þann veg að hún fengi að hafa vagninn. Um miðjan mars kom í ljós að samþykktin stóð óbreytt og því lá fyrir að beiðni hennar um pláss við Skólavörðuholt yrði hafnað þar sem hún er með bíl en ekki vagn.

Bauðst Jónína meðal annars til þess að taka vélina úr bílnum þannig að um væri að ræða farartæki sem þyrfti að draga líkt og vagn, en allt kom fyrir ekki. Þarf hún því að yfirgefa stæðið um miðjan maí þegar leyfi hennar rennur út en aðeins verða matvagnar en ekki bílar á svæðinu í sumar.

Einstæðingar komu og fengu sér súpu

„Ég er bara kona sem er að reyna að gera eitthvað skemmtilegt,“ segir Jónína í samtali við mbl.is. Hún segir að síðasta sumar hafi verið sérstaklega skemmtilegt. Mikið hafi verið um Íslendinga, sérstaklega einstæðinga sem komu og tóku matinn með sér heim og þá hafi súpan vakið mikla lukku hjá ferðamönnum.

Jónína segist hafa eytt gríðarlegum peningum í bílinn og lagt áherslu á að gera hann fínan. Nú standi hún aftur á móti uppi með atvinnutæki sem hún sér ekki fram á að geta nýtt og því ætlar hún að selja það.

Facebooksíða Farmers soup

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert