Borgin sogar til sín fólk og fé

Björn Snæbjörnsson.
Björn Snæbjörnsson.

„Þetta er svo einfalt reikningsdæmi, þegar við horfum á þjóðflutninga íslensks launafólks til annarra landa á undanförnum árum. Nú ætla launþegar að rétta sinn hlut, excelskjöl lögfræðinga og hagfræðinga vinnuveitenda breyta engu þar um.“

Þetta sagði Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar Iðju og Starfsgreinasambandsins, í hátíðarræðu á fundi stéttarfélaganna í Skagafirði í dag, sem haldinn var á Sauðárkróki.

Björn rifjaði upp þann árangur sem verkalýðsbaráttan hefði skilað Íslendingum í gegnum árin og sagði að aldrei mætti sofna á verðinum, „heldur standa vörð um það sem áunnist hefur í baráttunni um leið og við sækjum fram, verkalýðsbarátta er eilífðarbarátta.“

Þá sagði Björn einnig að landsbyggðin ætti undir högg að sækja; höfuðborgarsvæðið sogaði til sín fólk og fjármuni.

„Skagfirðingar og Eyfirðingar þekkja ágætlega umræðuna, þegar lagt er til að flytja opinber störf út á land. Við viljum byggja landið allt og það þýðir að dreifa verður opinberum störfum. Það segir sig sjálft, ekki nægir að setja sér göfug markmið í þessum efnum. Skagfirðingar og Eyfirðingar hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta og við eigum að íhuga möguleikana á enn frekari samvinnu í þessum málum, verkalýðshreyfingin getur beitt sér víða. Verkalýðshreyfingin á að láta byggðamál sig varða,“ sagði Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert