Herjólfur til Landeyjahafnar í dag

Herjólfur siglir sína fyrstu ferð á þessu ári til Landeyjahafnar …
Herjólfur siglir sína fyrstu ferð á þessu ári til Landeyjahafnar í dag. mbl.is/Styrmir Kári

„Skeytið sem allir hafa beðið eftir. Herjólfur siglir til Landeyjahafnar í dag 1. maí kl 17:00. Segjum það aftur Herjólfur siglir til Landeyjahafnar í dag.“

Á þessum orðum hófst tilkynning sem birtist á Facebook-síðu Herjólfs fyrr í dag en Herjólfur siglir í fyrsta skipti á þessu ári til Landeyjahafnar. Skipið sigldi síðast þangað hinn 30. nóvember á síðasta ári.

Tvö dæluskip Björgunar ehf. hafa unnið að dýpkun Landeyjahafnar upp á síðkastið en fyrst um sinn voru dæluskipin þrjú. Gunnlaugur Kristjánsson, forstjóri Björgunar, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að dýpkun hafnarinnar gengi vel. Búið sé að fjarlægja um 100 þúsund rúmmetra af sandi, þar af um 40 þúsund af rifinu sem er komið í fulla dýpt.

Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, var að vonum hæstánægður þegar mbl.is náði tali af honum í dag. Hann segir að áætlun Herjólfs næstu daga taki mið af sjávarstöðu líkt og hefur verið gert undanfarin ár. „Væntingar standa til þess að við getum farið að sigla á áætlun til Landeyjahafnar á næstu dögum,“ sagði hann en Herjólfur siglir inn í Landeyjahöfn á flóði í dag.

Áfram verður unnið að dýpkun hafnarinnar að sögn Gunnlaugs en veðurskilyrði eru mjög góð þessa stundina og útlit er fyrir að svo verði áfram næstu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert