Úlfarnir farnir að heimta sitt

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, á sviðinu í dag.
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, á sviðinu í dag.

Það er ekki til peningur fyrir alla, bara suma, segja atvinnurekendur. Þetta var meðal þess sem kom fram í ræðu Árna Stefáns Jónssonar, formanns SFR, í Reykjavík í dag. Hann sagði blikur á lofti. Óveðursský við sjóndeildarhringinn.

„Þegar hlustað er á forráðamenn ríkisstjórnarinnar ræða um efnahags- og kjaramál er bjart framundan. Annar stjórnarflokkurinn stærir sig meira að segja af því að það sé ekki nema eðlilegt að almenningur geri kröfur um hækkun launa, því svigrúmið sé fyrir hendi. En þegar til kastanna kemur er svarið „nei“.

Með atvinnurekendur í broddi fylkingar er fólki með laun á bilinu 200-300 þúsund krónur boðið 3,5% launahækkun og íspinna í kaupbæti! Það á að vera nóg. En ekki fyrir þá sem eru með þrjár til sex milljónir á mánuði - það er allt annar Óli.

Þeir eru atvinnulífinu svo mikilvægir. Það verður að halda þeim við efnið. Þeir eiga skilið háa kaupauka því annars fer þjóðfélagið þráðbeint á hausinn.

Eigum við að sleppa þessum snillingum lausum aftur og taka svo við næsta hruni eins og ekkert sé? Er þetta rugl eitthvað náttúrulögmál? Nei, að sjálfsögðu ekki! Það er tími til kominn að almenningur á Íslandi fari að taka í taumana!“ sagði Árni.

Maðkar í mysunni

Árni sagði hin miklu auðæfi náttúrunnar ættu að veita íslensku þjóðinni fáheyrð lífsskilyrði og velmegun. En það væru maðkar í mysunni og skemmd epli í tunnunni. „Stórtækar breytingar á skattkerfinu leiða til þess að almenningur þarf að taka á sig þyngri byrðar, en auðkonum og auðmönnum skal boðið í dans,“ sagði hann.

Ráðherrar íslensku þjóðarinnar væru skósveinar viðskiptajöfra í sendiferðum erlendis.

„Þeir lækka veiðigjöldin svo stóreignamenn megi græða meira. Þeir hækka matarskattinn svo barnafjölskyldur fái að greiða meira. Þeir þrengja að lánasjóðnum svo fátæku námsmennirnir geti haft það verra. Þeir hækka komugjöldin þannig að sjúkir fái að blæða.“

Árni sagði að vera þyrfti á varðbergi, nú þegar einkavæðingarjarlarnir væru aftur komnir af stað. Þróunin undanfarin ár ógnaði samtryggingarhugsjóninni og úlfarnir væru farnir að heimta sitt.

Hann sagði þjóðina standa á tímamótum, þar sem teknar yrðu afdrifaríkar ákvarðanir um afdrif hennar.

„Nú standa yfir einhver mestu og illvígustu átök á vinnumarkaði sem sést hafa í áratugi. Fullkomið vantraust og trúnaðarbrestur er á milli aðila. Við höfum séð hvernig atvinnurekendur koma fram. Á almenna markaðnum greiða fyrirtækin milljarða í arð til eigenda sinna og segja launafólki að éta það sem úti frýs. Ríkisvaldið gerir hina ríku ríkari og rekur samningsstefnu þar sem beinlínis er hvatt til átaka,“ sagði Árni.

„Tryggjum að dólgarnir steli ekki undan okkur sameiginlegum auðæfum, verjum velferðarsamfélagið og gleymum því ekki að á ævikvöldi okkar viljum við gjarnan geta horft í augu barnabarnanna og sagt með reisn: Kútur litli, ég barðist fyrir þig og landið okkar allra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert