Breiðhyltingar hvumsa vegna skemmdarverka

Bílar voru m.a. skemmdir fyrir utan Maríubakka. Speglar voru eyðilagðir …
Bílar voru m.a. skemmdir fyrir utan Maríubakka. Speglar voru eyðilagðir á bílunum. Ljósmynd/Valur

„Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þegar ég heyri svona fréttir,“ segir Helgi Kristófersson, formaður íbúasamtakanna Betra Breiðholt. Á Facebook-síðu íbúasamtakanna kviknaði heit umræða um skemmdarverk fjögurra ungra karlmanna í Breiðholti í gær. Mennirnir skemmdu um 20 bíla í hverfinu.

Helgi segir að Facebook-síðan virki sem nágrannavarsla þegar upp koma atvik sem þetta.

„Fólk talar þarna saman. Þá heyrist af því að einhverjir séu farnir af stað sem verður til þess að fólk lítur í kringum sig. Lögregla fylgist líka með umræðunum þarna þegar þeir hafa tíma,“ segir hann.

Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í morgun vistaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fjóra unga karlmenn á aldrinum 16-22 ára í fangageymslum í nótt en þeir eru grunaðir um að hafa skemmt yfir 20 bíla í Breiðholti.

Samfélagið brást drengjunum

Mörgum íbúum í Breiðholti þótti leiðinlegt að heyra af skemmdarverkunum eftir því sem fram kemur í umræðum um málið á Facebook-síðu samtakanna. Umræðurnar hófust seint í gær eftir að inn kom færsla um að sést hefði til ungmennanna við bílaplan verslunarinnar Iceland og Fjölbrautaskólans í Breiðholti og sagði viðkomandi að þeir hefðu eyðilagt þar samtals fimm bíla.

Íbúarnir og eigendur bílanna sem urðu fyrir skemmdum af völdum hópsins veltu því fyrir sér hverjar afleiðingarnar yrðu fyrir skemmdarvargana, ef einhverjar.

Einn íbúi kallar eftir því að innviðirnir séu styrktir þar sem samfélagið hafi brugðist þessum ungmennum. „Ef þeir eru undir 18 ára aldri eru þetta börn! Börn sem eru góðkunningjar lögreglunnar,“ skrifaði viðkomandi.

Annar svaraði og sagði „Rólegur Gandhi... Þetta kemur samfélaginu voðalega lítið við.. Það eru vitleysingar alls staðar,“ á meðan að annar íbúi veltir því fyrir sér hvort ástandið hafi versnað eftir tilkomu verslunarinnar Iceland sem er opin allan sólarhringinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert