Austfirðingar þreyttir á snjónum

mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

„Fólk er að verða svolítið þreytt á þessu,“ segir Sigurður Aðalsteinsson, fréttaritari á Egilsstöðum, um veðurfar þar í bæ. Á Austurlandi hefur allt verið á kafi í snjó síðustu tíu daga, og er fólk því orðið langeygt eftir sumrinu.

mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Þessar myndir tók Sigurður á Egilsstöðum í dag, en hann segir sumarið koma seinna en síðustu ár. „Við höfum fengið svona skot í maí, einn og einn byl, en þetta er öðruvísi því þetta er svo þrálátt,“ segir Sigurður og bætir við að ekkert lát sé á snjóþunganum. „Miðað við veðurspár eru engar breytingar í kortunum fram á fimmtudag að minnsta kosti.“

mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Sigurður segir hraglandann niðurdrepandi og því sé lítið af fólki utandyra eins og sjá má á myndunum. Þegar hann hafi tekið myndirnar í dag hafi hann aðeins orðið var við einn og einn krakka á leið heim úr skóla.

mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

„Á daginn þegar sólarinnar gætir uppi á Héraði sígur þetta og sjatnar, en eins og sést á myndunum þá þekur þetta eiginlega allt og er ekkert að fara,“ segir Sigurður, og bætir við að enn meiri snjór sé á Norðfirði. „Þar er meiri úrkoma yfir daginn en hér er þetta svo lítið; það er smá éljagangur en það er frekar kalt.“

Vegna kuldans bendir Sigurður á að öllu fé sé haldið inni, en sauðburður er byrjaður í héraðinu. 

mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Áður en óveðrið skall á fyrir tíu dögum var fínasta veður á svæðinu að sögn Sigurðar og allt leit út fyrir að sumarið væri að fara að láta sjá sig. Hann segir þó ekki alla láta bugast þegar að þessu kemur. 

„Dóri málari í Olískaffi sagði í morgun þegar verið var að kvarta yfir snjó á Norðfirði að þetta væri miklu betra. Þegar þessi snjór færi kæmi allt grænt undan honum en uppi á Héraði þar sem væri minni snjór yrði allt grátt og kalið þegar snjórinn væri farinn. Hann sér alltaf ljós í myrkrinu,“ segir Sigurður hlæjandi að lokum.

Frétt mbl.is: Allt á kafi í snjó fyrir austan

mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson
mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert