Munu hafa meira en óþægileg áhrif

„Við höfum fundið fyrir einhverju af afbókunum og það er töluvert verið að spyrja,“ segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is spurður um möguleg áhrif fyrirhugaðra verkfalla Starfsgreinasambandsins (SGS).

Boðuð hefur verið vinnustöðvun frá miðnætti í kvöld og næstu tvo sólarhringa og frekari aðgerðir á næstunni náist samningar ekki við atvinnurekendur fyrir þann tíma. Einnig er gert ráð fyrir allsherjar vinnustöðvun allan sólarhringinn 19. og 20. maí verði ekki búið að semja. Ótímabundin vinnustöðvun hefst síðan frá miðnætti aðfaranætur 26. maí.

Skapti segir að vinnustöðvun á fimmtudaginn í síðustu viku, sem stóð frá hádegi og til miðnættis, hafi valdið óþægingum en ferðaþjónustufyrirtæki hafi getað skipulagt sig talsvert vegna þess.

„En það er alveg ljóst að þessar aðgerðir á morgun og hinn munu hafa meira en óþægileg áhrif,“ segir hann. Aðgerðirnar muni einkum hafa áhrif á landsbyggðinni. Ekki síst rekstur gististaða vegna þrifa og annars slíks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert