Áhrif verkfalls á íbúa Akraness gífurleg

Akranes. Verkfallsaðgerðir SGS hafa gífurleg áhrif á bæinn í dag …
Akranes. Verkfallsaðgerðir SGS hafa gífurleg áhrif á bæinn í dag og á morgun. Ljósmynd/Akranes

Vel á þriðja hundrað manns sem starfa hjá fiskvinnslufyrirtækjum á Akranesi hafa lagt niður störf vegna verkfallsaðgerða SGS. Þar að auki hafa sorphirðumenn lagt niður störf og starfsmenn í mötuneyti Elkem Ísland á Grundartanga. Einnig er lokað í öllum sjoppum og bensínafgreiðslustöðvum þar sem starfa félagsmenn VLFA.

Þetta kemur fram í frétt sem birtist í dag á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness um verkfallsaðgerðir SGS sem hófust á miðnætti. 

Þar kemur einnig fram að ræstingar á leikskólum, bókasafni og fleiri stofnunum Akraneskaupstaðar liggja niðri vegna verkfallsins, sem gerir það að verkum að leikskólarnir verða lokaðir á föstudaginn þar sem ekki hefur verið ræst þar í tvo sólarhringa.

„Eðli málsins samkvæmt mun það hafa í för með sér erfiðleika fyrir foreldra að ekki verði hægt að koma börnunum fyrir á leikskólum. Innanbæjarstrætó gengur hvorki í dag né á morgun og heimaþjónusta Akraneskaupstaðar er skert. Ekki má gleyma verkfalli starfsmanna Spalar í gjaldskýli Hvalfjarðarganga. Það jákvæða í því er þó að vegfarendur fá frítt í göngin á meðan á verkfalli stendur,“ segir í fréttinni.

Þar kemur einnig fram að heilt  yfir hafa atvinnurekendur virt verkfallið og sárafáar tilkynningar borist um verkfallsbrot. Félagið hvetur almenning til að hafa samband við skrifstofu félagsins ef það telur að verið sé að brjóta á lögvörðum rétti verkafólks í þessu verkfalli með því að láta það vinna eða ef verið er að ganga í störf verkafólks.

Þessi lota verkfallsaðgerða SGS stendur yfir til miðnættis annað kvöld. Næsta lota hefst 19. maí og stendur yfir í tvo sólarhringa. Ef ekki næst að semja hefst óvinnustöðvun hefst á miðnætti aðfaranótt 26. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert