Mörg þúsund færu í verkfall

Kristján Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
Kristján Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.

„Ég vona nú að við náum að semja fyrir þennan tíma. En ef það fer út í þetta þá er nokkuð ljóst að það mun hafa töluverð áhrif á starfsemi ýmissra fyrirtækja,“ segir Kristján Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, í samtali við mbl.is. 

Niðurstaða fundar viðræðunefnda Rafiðnaðarsambandsins, Matvís, Samiðnar, Grafíu - stéttarfélagi í prent- og miðlunargreinum, Félags hársnyrtisveina og Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Samtaka atvinnulífsins hjá Ríkissáttasemjara í dag var sú að tilgangslaust væri að halda viðræðum áfram þar sem þær hefðu ekki skilað árangri samkvæmt fréttatilkynningu frá stéttarfélögunum í dag. Mikill ágreiningur mun vera um launalið samninga. Viðræðunefnd stéttarfélaganna beindi því í kjölfarið til stéttarfélaganna að þegar yrði hafinn undirbúningur að atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um verkfallsheimild.

Spurður hversu margir fari í verkfall komi til þess segir Kristján að sú tala sé líklega í kringum 10-12 þúsund manns. Spurður áfram hvort frekari viðræðufundir séu fyrirhugaðir segir hann að Ríkissáttasemjari muni væntanlega boða til annars fundar á næstunni. Líklega eftir vikur til þess að kanna stöðuna. „En eins og staðan var á fundinum í dag þá var mjög takmarkaður samningsvilji til þess að reyna að komast eitthvað áfram. Þetta gekk ekki nógu vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert