Leikskólar verða opnir á Akureyri

Leikskólar verða lokaðir á Akranesi en opnir á Akureyri og …
Leikskólar verða lokaðir á Akranesi en opnir á Akureyri og í Hveragerði. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Gert er ráð fyrir að leikskólar Akureyrarbæjar og annar leikskóli Hveragerðisbæjar verði opnir á morgun þrátt fyrir að starfsfólki Hreint ehf. hafi ekki verið heimilt að ræsta þar í gær og í dag vegna verkfalls félagsmanna Starfsgreinasambandsins.

Líkt og mbl.is greindi frá í morgun hefur verkfall starfsmanna sem ræsta leikskóla í för með sér að leikskólar Akraneskaupstaðar geta ekki tekið á móti börnum á morgun, föstudaginn 8. maí, þar sem leikskólarnir hafa ekki verið ræstir þá í tvo daga.

Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands má ekki vera starfsemi í leikskóla ef ekki hefur náðst að ræsta í tvo daga, líkt og kemur fram í frétt Akranesskaupstaðar.

Samkvæmt upplýsingum frá leikskólanum Óskalandi í Hveragerði er reiknað með að tekið verði á móti börnunum á morgun en aftur á móti er reiknað með að leikskólinn Undraland verði lokaður, nema annað komi í ljós.

Starfsemi heimil þó ekki sé ræst í tvo daga

Starfsfólk Hreint ehf. sér um ræstingu flesta af þeim tíu leikskólum sem Akureyrarbær rekur og er gert ráð fyrir að þeir verði allir opnir á morgun. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra er það hússtjórnanda, í þessum tilvikum leikskólastjóra, að segja til um hvenær er hægt að hafa opið.

Á hverjum stað þurfa að liggja fyrir áætlanir um þrif, innra eftirlit og viðbragðáætlun sem segir til um til hvaða úrræða á að grípa ef ekki er hægt að ræsta húsið.

Ekki er til formlegar reglur hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra sem segja til um að ekki megi vera starfsemi í leikskólunum, takist ekki að ræsta í tvo daga. Allajafna ætti að vera hægt að halda starfseminni gangandi ef ekkert sérstakt kemur upp á en það er þó á ábyrgð stjórnanda á hverjum stað að taka ákvörðun um málið.

Frétt mbl.is: Leikskólum lokað vegna verkfalls

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert