Fengu ekki leyfi frá kirkjunni

Santa Maria della Misericordia
Santa Maria della Misericordia

Kaþólska kirkjan í Feneyjum hefur hótað því að láta loka íslenska skálanum á Feneyjar tvíæringnum en þar sýnir svissneski listamaðurinn Christoph Büchel verkið MOSKAN – Fyrsta moskan í Feneyjum. Þetta kemur fram í Telegraph í gær en múslímar hafa fengið að biðja inni í Santa Maria della Misericordia kirkjunni í Feneyjum frá því á föstudag.

Innsetning Büchels gengur út á að gamalli aflagðri kaþólskri kirkju var breytt í mosku tímabundið. Verkið er framlag Íslands á myndlistarmessunni í ár. 

Kaþólska kirkjan segir að ekki hafi verið haft samband við hana í tengslum við innsetninguna og þrátt fyrir að kirkjan hafi verið afhelguð fyrir 45 árum síðan þá verði að fá heimild til þess að nota kirkjuna í þessum tilgangi. Í tilkynningu frá yfirmanni kaþólsku kirkjunnar í Feneyjum höfðu aðstandendur íslenska skálans ekkert samband við kirkjuyfirvöld og því hafi þeir aldrei óskað eftir, né heldur fengið heimild til þess að nota kirkjuna með þessum hætti. Kirkjan hefur verið í eigu orkufyrirtækis síðan árið 1973.

Ef listamaðurinn hefur ekki samband og fær tilskilin leyfi þá verði innsetningunni lokað þann 20, maí næstkomandi en til stóð að verkið yrði í gangi þangað til Tvíæringnum lýkur í nóvember.

Í Morgunblaðinu í dag segir Björg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, sem hefur umsjón með þátttöku Íslands á Feneyjatvíæringnum, óvíst hvort sýning Íslands muni standa allan þann tíma. „Við höfum velt því fyrir okkur að vera ekki allan tímann, m.a. vegna mikils kostnaðar. Eins og staðan er núna stefnum við að því að vera áfram. En við sjáum hvernig þetta þróast og tökum þá ákvörðun.“

Frétt Telegraph

Verður moskunni lokað

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert