Aðeins lífsbjargandi þjónusta í boði

Lilja Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs á Landspítalanum.
Lilja Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs á Landspítalanum. Ómar Óskarsson

Ljóst er að loka þarf fjölda deilda á skurðlækningasviði Landspítalans vegna verkfalls hjúkrunarfræðinga sem hefst í nótt. Þar af verður rúmlega helmingur rúma á bráðalegudeild lokað og í heild verða aðeins 44 hjúkrunarfræðingar með undanþágu á sviðinu. Þetta segir Lilja Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs á Landspítalanum, í samtali við mbl.is.

Lilja segir að dag- og göngudeildarstarfsemi muni svo gott sem leggjast af í verkfallinu og að draga þurfi saman á öllum stöðum. Þannig sé aðeins einn þriðji hluti hjúkrunarfræðinga á bráðadeildum sviðsins sem hafi heimildir til að starfa samkvæmt öryggislista, sem einnig hefur verið nefndur undanþágulisti.

Aðeins lífsbjargandi þjónusta næstu daga

Hún segir þetta verkfall núna koma ofan í önnur verkföll sem hafi dunið á heilbrigðisstéttinni og að ekki hafi enn verið búið að vinna upp þá biðlista sem urðu til t.d. í læknaverkfallinu. Segir hún að aðeins verði rekin lífsbjargandi þjónusta næstu daga ef ekki semst, en þó megi gera ráð fyrir að fleira starfsfólk verði kallað út á næstu dögum og að þegar sé unnið að því að fá slíkar undanþágur samþykktar. Lilja segir verkfallsréttinn heilagan part af lýðræðissamfélagi, en að passað verði upp á að ekki hljótist beinn skaði af.

Hún segir þessar aðgerðir núna vera þær umfangsmestu síðan á árunum 1990-1991 og að nú verði að taka hvern dag skref fyrir skref til að halda lífsnauðsynlegustu þjónustunni gangandi. Hún segir ljóst að biðlistar muni lengjast, en það komi í kjölfarið á lengingu þeirra í öðrum verkföllum innan heilbrigðisgeirans upp á síðkastið. Hún segir því komið að því að einhver taki af skarið, alveg sama með hvaða hætti það sé gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert