Umsögn ráðuneytisins ekki efnisleg

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að umsögn fjármálaráðuneytisins um húsnæðisfrumvarp Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra sé aðeins kostnaðarumsögn, ekki efnisleg umsögn. Hann telur að aðgerðir í húsnæðismálum gætu verið liður í lausn á yfirstandandi kjaraviðræðum.

„Við erum að vinna í húsnæðismálunum heilt yfir og þessi frumvörp Eyglóar eru hluti af vinnu sem tengist beint eða óbeint stöðunni á vinnumarkaði. Ég geri ráð fyrir því að við fáum niðurstöðu í það á næstunni, en ráðherrann er að sjálfsögðu með forræði á þessum málum og kemur með þau í ríkisstjórn þegar hún telur það tímabært,“ sagði Bjarni að loknum ríkisstjórnarfundi í hádeginu.

Húsnæðisfrumvörp Eyglóar voru ekki rædd sérstaklega á fundinum.

Fram kom í kvöldfréttum RÚV í gær að útgjöld ríkissjóðs gætu aukist um liðlega tvo milljarða króna á ári frá því sem nú er, verði frumvarp Eyglóar samþykkt óbreytt, og verði nálægt 6,6 milljörðum króna frá og með 2017.

Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót breyttu bótakerfi fyrir leigjendur. Húsnæðisbætur kæmu til að mynda í stað húsaleigubóta sem eru greiddar í núverandi kerfi.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins segir meðal annars að greining ráðuneytisins gefi til kynna að hlutfallslega myndi niðurgreiðsla húsaleigu verða meiri eftir því sem tekjur heimila eru hærri. Ekki verði séð að það sé í samræmi við markmið frumvarpsins um að auka stuðning við efnalitla.

Óvenju umfangsmikil umsögn

Bjarni sagði það ekki sitt hlutverk að svara fyrir mál annars ráðherra. Þetta væri bara kostnaðarumsögn, en ekki efnisleg umsögn um frumvarpið.

„En kostnaðarumsögnin er óvenju umfangsmikil. Þetta eru flókin mál og miklir útreikningar að átta sig nákvæmlega á því hvernig þetta legst yfir ólíka tekjuhópa. Þetta er bara staðreyndarlýsing sem þarna er að finna,“ sagði Bjarni.

Hann bætti við að kostnaðarumsagnir væru ekki á sínu borði. Þær væru unnar á skrifstofu opinberra fjármála sem hefði fullt sjálfstæði til þess að klára þessa vinnu.

Þá kom fram í máli Bjarna að aðgerðir í húsnæðismálum gætu verið mikilvægur liður í því að ná niðurstöðu í kjaradeilum á vinnumarkaði. Slíkar aðgerðir voru aðeins ræddar á ríkisstjórnarfundinum.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra.
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert