Dró sér rúmar 9 milljónir

Sérstakur saksóknari hefur ákært karlmann á sextugsaldri fyrir fjárdrátt og meiri háttar brot gegn lögum um bókhald og lögum um ársreikninga. Saksóknari segir að fjárdráttur mannsins nemi tæpum 9,5 milljónum króna.

Ákæran, sem er í tveimur liðum, var gefin út í lok apríl og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. 

Maðurinn er ákærður fyrir fjárdrátt með því að hafa á tímabilinu 1. febrúar 2011 til 1. október 2013, sem eigandi, framkvæmdastjóri og prókúruhafi einkahlutafélags, dregið að sér samtals 9.460.719 kr. af fjármunum félagsins með millifærslum af bankareikningi þess inn á bankareikninga sína, sem eru í sama banka, og með peningaúttektum af sama bankareikningi félagsins.

Ráðstafaði fénu í eigin þágu og virti gjaldfallnar skuldir að vettugi

Fram kemur, að maðurinn hafi ráðstafað fénu í eigin þágu en virti um leið að vettugi gjaldfallnar skuldir félagsins, kröfuhöfum þess til tjóns. Húsgagnafyrirtæki mannsins var úrskurðað gjaldþrota 10. október 2013. Þrotabú félagsins reyndist eignalaust og lauk skiptum þess 29. janúar án þess að neitt fengist greitt upp í lýstar kröfu, samtals 25,6 milljónir króna. 

Í ákærunni segir ennfremur, að samkvæmt skattframtölum hafi maðurinn talið fram launatekjur frá fyrirtækinu tekjuárið 2011, samtals 1,4 milljónir króna og tekjuárið 2012 samtals 2,3 milljónir króna. Millifærslur og peningaúttektir mannsins frá félaginu á framangreindu tímabili námu samtals 13,1 milljón en að teknu tilliti til þessara framtöldu launatekna mannsins telst fjárdráttur hans frá félaginu nema tæpum 9,5 milljónum kr.

Brotin varða við 1. mgr. 247 gr. almennra hegningarlaga og getað varðað allt að sex ára fangelsi.

Maðurinn er ennfremur ákærður fyrir meiri háttar brot gegn lögum um bókhald og lögum um ársreikninga með því að hafa sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins ekki fært tilskilið bókhald fyrir félagið vegna starfsemi þess á árunum 2011 og 2012 og vanrækt að standa skil á ársreikningum fyrir félagið til opinberrar birtingar vegna sömu ára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert