Hvernig breytast launin?

Formaður VR ásamt öðrum samningsaðilum í Karphúsinu í dag.
Formaður VR ásamt öðrum samningsaðilum í Karphúsinu í dag. mbl.is/Golli

Þeir samningar sem VR, LÍV og Flóabandalagið undirrituðu við SA í dag fela í sér hækkun grunnlauna yfir þriggja og hálfs árs tímabil og verða lægstu laun í lok árs 2018 orðin 300 þúsund. Samhliða samningunum gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um breytingu á skattkerfinu og hækkun persónuafsláttar. En hvernig munu launin breytast? Mbl.is skoðaði málið aðeins nánar.

Samningur VR og LÍV við SA er mjög svipaður samningi Flóabandalagsins. Er það aðallega eitt atriði í samningi VR og LÍV um hækkun byrjunarlauna um 3.400 krónur 1. maí 2015 og 1.700 krónur 1. maí 2016 , sem sker sig frá samningi Flóabandalagsins.

Samningur VR og LÍV inniheldur annars eftirfarandi ákvæði:

Launahækkun 1. maí 2015 

  • Launataxtar hækka um kr. 25.000. 
  • Byrjunarlaun  öllum launatöxtum VR hækka að auki um kr. 3.400 
  • Launaþróunartrygging er frá 3,2% upp í 7,2%, en hlutfallið fer eftir launaþrepi og hvenær viðkomandi hóf störf.
  • Dæmi um launaþróunartryggingu
    Starfsmaður er með kr. 500 þúsund í mánaðarlaun. Hann hóf störf hjá atvinnurekanda fyrir 1. febrúar 2014 og hefur EKKI fengið launahækkun eftir 2. febrúar 2014. Hann fær 5,4% hækkun skv. launaþróunartryggingu. Hafi hann fengið hækkanir á tímabilinu eru þær dregnar frá, en honum er tryggð að lágmarki 3,2% hækkun. Starfsmaður sem hóf störf frá 1. febrúar 2014 til loka desember 2014 fær 3,2%. 

Launahækkun 1. maí 2016 

  • Launaþróunartrygging er 5,5%, að lágmarki 15 þúsund krónur, fyrir starfsmann sem hóf störf fyrir 1. maí 2015.

Launahækkun 1. maí 2017 

  • Launataxtar hækka um 4,5% 
  • Byrjunarlaun skv. launataxta hækka að auki um kr. 1.700 
  • Almenn hækkun er 3% 

Launahækkun 1. maí 2018 

  • Launataxtar hækka um 3% 
  • Almenn hækkun er 2% 

VR hefur sett þetta fram sem heildar prósentuhækkun, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Er þar bæði horft til þess hver hækkunin er án og með tillits til skattbreytinga. Samkvæmt því hækka laun lægst launaða hópsins mest, eða um 22,7% þegar tekið er tillit til skattabreytinga. Hjá einstaklingum með 300 þúsund í laun nemur hækkunin 15,5% og hjá einstaklingnum með 600 þúsund er hækkunin 16,3%.

Hjá Flóabandalaginu eru sömu tölur uppi, en í stað hækkana á byrjunarlaunum á þessu ári og árið 2017 hækkar orlofs- og desemberuppbót talsvert. Fer orlofsuppbót í 48.000 kr. í lok samningstímans og desemberuppbót hækkar í 89.000 kr. í lok gildistíma samningsins.

Nánar má lesa um samningana hér:

Heimasíða VR

Heimasíða Eflingar

Hækkanir samkvæmt útreikningum VR.
Hækkanir samkvæmt útreikningum VR. Mynd/Vr.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert