Hefur unnið öll mál gegn ríkinu

Erla Hlynsdóttir
Erla Hlynsdóttir mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Erla Hlynsdóttir, blaðamaður er afar ánægð með niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu en í morgun vann hún mál gegn íslenska ríkinu fyrir dómstólnum. Þetta er í þriðja skiptið sem Hæstiréttur Íslands er dæmdur fyrir að hafa brotið Mannréttindasáttmála Evrópu gagnvart Erlu. 

Að sögn Eru átti hún í raun von á þessari niðurstöðu. „Ég hélt alltaf í vonina og var nokkuð sigurviss. En þetta er aldrei fast í hendi fyrr en niðurstaðan er komin,“segir Erla og bætir við að þetta sé ekki bara gríðarleg ánægja heldur mikill léttir þegar niðurstaðan var ljós í morgun.

Erla hafði betur

Erla hefur í þrígang verið dæmd fyrir meiðyrði fyrir íslenskum dómstólum og í öll skiptin hefur Hæstiréttur verið dæmdur fyrir brot á ákvæðum tíundu greinar Mannréttindasáttmálans, vegna niðurstöðu sinnar. 

„Við fórum með öll málin þrjú út fyrir Mannréttindadómstólinn og unnum þau öll,“ segir Erla. Enn eru nokkur mál fyrir dómstólnum þar sem íslenskir blaðamenn telja að íslenskir dómstólar hafi brotið gegn tíundu grein Mannréttindasáttmálans sem fjallar um tjáningarfrelsið. Þar á meðal eitt sem Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Erlu, kærði niðurstöðu Hæstaréttar eftir að Mannréttindadómstóllinn dæmdi Erlu og Björk Eiðsdóttur í vil. Telur Gunnar Ingi að Hæstiréttur hafi þar ekki dæmt í samræmi við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins.

Til um­fjöll­un­ar var dóm­ur Hæsta­rétt­ar þar sem Erla Hlyns­dótt­ir var dæmd ábyrg fyr­ir fyr­ir­sögn á forsíðu DV í júlí 2007. Um var að ræða um­fjöll­un Erlu um mann sem grunaður var um stór­felld­an kókaín­inn­flutn­ing.

Dóm­ar­ar við Mannréttindadómstólinn voru sam­mála um að ís­lenska ríkið hafi brotið gegn tí­undu grein sátt­mál­ans og fær Erla greiddar 4.500 evr­ur, sem svar­ar til 665 þúsund króna, í bæt­ur.

Aðspurð um það hvort niðurstaða Mannréttindadómstólsins í þessu máli sem og hinum tveimur sem hún hefur unnið gegn íslenska ríkinu hafi einhver áhrif á þá dóma sem féllu á Íslandi segist Erla telja að svo sé ekki. Í öllum tilvikum var Erla dæmd í Hæstarétti til þess að greiða þeim sem kærðu hana fyrir meiðyrði bætur og hún fær þær greiðslur ekki endurgreiddar enda runnu þær til viðkomandi einstaklings, ekki íslenska ríkisins.

„Tíunda grein Mannréttindasáttmála Evrópu:

10. gr.[Tjáningarfrelsi.]1)
1. Sérhver maður á rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi hindra ríki í að gera útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndafyrirtækjum að starfa aðeins samkvæmt sérstöku leyfi.
2. Þar sem af réttindum þessum leiðir skyldur og ábyrgð er heimilt að þau séu háð þeim formsreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum og til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála eða til þess að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.“

Dómur Mannréttindadómstól Evrópu frá því í morgun

Dómur Hæstaréttar sem tekist var á um

Erla Hlynsdóttir vann málið - frétt tengd starfsemi Byrgisins

Unnu mál gegn ríkinu - frétt tengd málum Erlu og Björk Eiðsdóttur

Dómur Mannréttindadómstólsins í Strawberriesmáli

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert