Rannsaki frekar áhrif á hafið

Súrnun sjávar gæti haft mikil áhrif á lífríki hans. Áhrifin …
Súrnun sjávar gæti haft mikil áhrif á lífríki hans. Áhrifin á skeldýr og þörunga neðst í fæðukeðjunni gætu haft áhrif á fiskistofna. Myndin er úr safni. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Hugmyndir um áhrif loftslagsbreytinga á lífríki sjávar einkennast af ágiskunum og nauðsynlegt er að gera frekari rannsóknir á þeim. Þetta kom fram í máli Hauks Þórs Haukssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), á fundi um loftslagsbreytingar í morgun.

Haukur Þór var einn frummælenda á opnum fundi um áhrif loftslagsbreytinga á lífríki sjávar sem Náttúruverndarsamtök Íslands stóðu fyrir ásamt franska sendiráðinu, Evrópustofu og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Hann sagði að sjávarútvegurinn væri orðinn meðvitaðir um áhrif umhverfisþátta og nefndi sem dæmi að SFS styrki nú rannsóknir á súrnun sjávar.

Áður hafði Kelly Rigg, stofnandi og framkvæmdastýra alþjóðlegu umhverfisverndarsamtakanna Varda Group, farið yfir hvernig höf jarðar hafi súrnað tíu sinnum hraðar á undanförnum hundrað árum en á tugum milljónum ára þar á undan. Ástæðan er gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda sem menn hafa losað með bruna jarðefnaeldsneytis sem valda breytingum á loftslagi jarðarinnar.

Höfin hafi tekið upp um 30% af koltvísýringnum sem menn hafi losað og líkön geri ráð fyrir því að þau muni súrna um 150% fyrir lok þessarar aldar. Súrnunin hafi áhrif á lífríki sjávar þar sem hærra sýrustig sé skaðlegt skeldýrum sem hafi svo keðjuverkandi áhrif upp fæðukeðjuna.

Helmingi meiri fiskur á hvern olíulítra nú

Haukur Þór sagði hins vegar að erfitt væri að reikna nákvæmlega út hvaða áhrif loftslagsbreytingar myndu hafa á lífríki sjávar. Mikil óvissa væri um þau og mikið væri um ágiskanir í þeim rannsóknum sem hafi verið gerðar. Áhrifin við Ísland gætu orðið jákvæð en þau gætu einnig orðið afar neikvæð. 

SFS talaði fyrir sjálfbærum veiðum á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og skilvirkrar fiskveiðistjórnunar. Í samhengi við loftslagsbreytingar benti hann á að eftir tilkomu kvótakerfisins hafi togurum fækkað um helming. Þannig veiddist nú helmingi meiri fiskur á hvern olíulítra sem skipin brenndu en fyrir 20-30 árum.

Þá lagði hann áherslu á að sjávarútvegsfyrirtæki hefðu getu til að fjárfesta í nýrri tækni. Það sama gilti um fiskiskip og bíla að nýrri skip losuðu minna af gróðurhúsalofttegundum en þau eldri. Rannsókn sem gerð var í fyrra hafi leitt í ljós að meðalaldur fiskiskipaflotans væri yfir 30 ár á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert