„Rökfærslan skiptir mestu máli“

Víðir Smári ásamt unnustu sinni, Hrafnhildi Margréti Jóhannesdóttur og dóttur.
Víðir Smári ásamt unnustu sinni, Hrafnhildi Margréti Jóhannesdóttur og dóttur. Úr einkasafni

„Í tímum er hugmyndafræðin á bakvið lögfræðina rædd frekar en hreinn prófaundirbúningur eins og grunnnámið mitt á Íslandi var meira,“ segir Víðir Smári Petersen sem útskrifaðist á fimmtudaginn frá Harvard-háskóla með hæstu einkunn í öllum fögum auk þess sem hann hlaut viðurkenningu fyrir lokaritgerði sína í Evrópurétti og evrópskri réttarhugsun.

Hann er útskrifaður lögfræðingur frá Háskóla Íslands og starfar á lögmannsstofunni Lex. Áður hefur hann einnig tekið sæti á Alþingi, aðeins 22 ára gamall, sem yngsti þingmaður sögunnar.

„Í prófunum sjálfum megum við hafa öll gögn með okkur, bækur og glósur. Í stað þess að prófa okkur úr því sem við munum utanað, er verið að veita okkur þjálfun í raunhæfum verkefnum og skoðað hvernig við rökstyðjum niðurstöðuna okkar,“ segir Víðir. 

Þverfagleg nálgun endurspeglar réttarkerfið

Annar stór munur á lögfræðináminu erlendis og hérlendis segir Víðir að sé þverfaglega nálgunin vestanhafs. „Það var mikið lagt upp með þverfaglega nálgun í Harvard og þeir blanda alls kyns fögum saman við lögfræðina eins og til dæmis hagfræði, sálfræði og mannfræði. Það er skemmtileg nálgun sem ég kynntist ekki í laganámi heima en hún hefur þó verið að ryðja sér rúms á síðustu 2-4 árum.“

„Ég var talsvert að læra réttarhagfræði sem er blanda af lögfræði og hagfræði og svo tók ég einn áfanga sem blandaði saman hagfræði, lögfræði og sálfræði í einhvers konar atferlisréttarhagfræði. Þar áttum við að meta út frá atferlisgreiningum hvaða stefnu lög eiga að taka með því að rannsaka hvernig fólk bregst við þegar lögum er breytt.“

Víðir segir kennsluna endurspegla þann mun sem er á lögfræðilegri nálgun í Bandaríkjunum annars vegar og á Íslandi og í Evrópu hins vegar. „Bandaríkjamenn eru í þessum fordæmisrétti sem er líka ástæðan fyrir því að það er lagt mikið upp með þessari þungu rökfærslu. Þú þarft að sannfæra dómarann um þinn málstað og það eru kannski engin lög eða annað slíkt sem tekur á skarið um það hvernig leysa á úr álitaefninu. Það er því meira af ólögfestum meginreglum þar heldur en hér.“

Samkeppni á meðal grunnnema

Hann hlaut hin svokölluðu Mancini-verðlaun fyrir ritgerð sína í Evrópurétti. „Ritgerðin var á sviði samkeppnisréttar og Evrópuréttar. Hún fjallaði í stuttu máli um það þegar sami einstaklingur situr í stjórn tveggja eða fleiri fyrirtækja sem eru í samkeppnisrekstri. Mín röksemdafærsla var á þá leið að Evrópusambandið ætti að leggja bann við því að slíkt sé gert.“

Námið í Harvard er strangt en Víðir segir að töluverð áhersla sé einnig lögð á félagslega þáttinn. „Það var talsvert um það að fólk var að hittast vikulega á föstudögum eða laugardögum. En námið setti strik í reikninginn fyrir flesta þannig að það var lítill tími fyrir slíkt.“ Hann segir námið þó ekki felast í lestri myrkranna á milli. „Þetta var eins og hefðbundin vinna frá 8-17, eða aðeins lengur ef maður var í tíma um morguninn. Síðan var talsverð kvöldvinna þegar það var mikið lesefni lagt fyrir eða þú þurftir að skila ritgerðum.“

Víðir stundaði nám á meistarastigi en einhverja áfanga sat hann með grunnnemum. Hann segir að samkeppnin á meðal nemenda sé aðallega á milli nemenda í grunnnáminu. „Þeir sem eru í meistaranáminu eru flestir búnir með lögfræðigráðu og þegar með reynslu en grunnnemarnir eru rosalega einbeittir, sérstaklega á fyrsta ári sem þykir það erfiðasta.“

Í sumar mun Víðir vinna að verkefni á sviði réttarhagfræði sem hann hlaut fræðimannastyrk til þess að vinna að. Í lok júní kemur hann svo heim og ætlar sér að blanda saman sumarfríi og vinnu þar til hann hefur störf sem aðstoðarmaður Hæstaréttardómara í ágúst. Því starfi mun hann gegna í eitt ár áður en hann ætlar að snúa aftur á Lex.

Víðir Smári Petersen tók sæti á Alþingi árið 2011, aðeins …
Víðir Smári Petersen tók sæti á Alþingi árið 2011, aðeins 22 ára gamall, fyrir Sjálfstæðisflokkinn. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert