Glersöfnin á öllum grenndarstöðvum

Glersöfnun í sérstaka glergáma á grenndarstöðvum hefur gengið vel í Reykjavík en tilraun hefur verið gerð með slíka  gáma á fjórum stöðum í borginni. Nú hefur umhverfis- og skipulagsráð samþykkt að koma á glersöfnun á öllum grenndarstöðvum í borginni. 

Þetta kemur fram í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Söfnun glers verður innleidd í áföngum til ársins 2020. Nú þegar er hægt að skila öllu gleri á endurvinnslustöðvar SORPU bs. auk fjögurra  grenndarstöðva. Grenndarstöðvum þar sem hægt er að skila gleri mun fjölga í átta á þessu ári,  þær verða 22 í lok árs 2017 og  árið 2020 munu  allar  57 grenndarstöðvarnar státa af glersöfnun.

„Það verður æ einfaldara fyrir borgarbúa að skila endurvinnanlegum efnum til endurvinnslu en alls búa 85% Reykvíkinga í 500 metra fjarlægð frá grenndar- eða endurvinnslustöð eða minna.  Að meðaltali er fjarlægðin 329 m,“ segir í frétt borgarinnar.

Talið er að árið 2014 hafi rúmlega eitt þúsund tonn af gleri og steinefnum fallið til frá heimilum í Reykjavík og verið urðuð með blönduðum heimilisúrgangi í Álfsnesi. Efla verkfræðistofa vann mat á umhverfisáhrifum og ávinningi af söfnun, útflutningi, flokkun og endurvinnslu umbúðaglers frá Íslandi. Samkvæmt matinu er talsverður ávinningur af því  út frá umhverfislegu sjónarhorni að flokka, safna, flytja út og endurvinna gler frá Íslandi.

Markmiðið með að koma á glersöfnun á grenndarstöðvum er tvíþætt, annars vegar að minnka hlut glers í blönduðum heimilisúrgangi með því að auðvelda íbúum skil á gleri og hins vegar að skoða forsendur þess að endurvinna glerið í stað þess að endurnýta það í burðarlag.

Í gámana má skila hvers konar gleri sem fellur til á heimilum, s.s. sultukrukkum, lýsisflöskum og öðrum glerflöskum án skilagjalds auk alls kyns öðrum ílátum úr gleri. Glerið má hvort sem er vera glært eða litað en glerílátin þurfa að vera hrein og best er að taka allan málm, svo sem lok og tappa af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert